17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Meðferð þessa máls við 1. umr. varð með alleinkennilegum hætti, þannig, að það var alls ekki rætt. En vegna þess, að fjhn. á eftir að koma fram með brtt. við frv., vil jeg þegar æskja þess, að atkvæðagreiðslu um það verði frestað þangað til þær brtt. eru fram komnar.

Frv. þetta er borið fram af fjhn. og er þess efnis að veita atvinnumálaráðherra heimild til að leyfa virkjun Dynjandisár og fleiri fallvatna í Arnarfirði. Það er gert ráð fyrir því, að virkjuð verði alt að 40 þús. hestöfl, orkuver reist í Arnarfirði, en orkan leidd til Önundarfjarðar. Er þessu svo greinilega lýst í greinargerð frv., að jeg tel óþarft að lýsa því frekar, en óski hv. þdm. frekari skýringa, geta þeir fengið þær, annaðhvort hjá nefndinni eða formanni fjelags þess, er sjerleyfisins leitar. Jeg skal þó geta þess, að fjelagið hefir þegar varið hundruðum þúsunda króna í rannsóknir þarna vestra, og niðurstaðan er sú, að landslag, afstaða fallvatna og ástand er í besta lagi fallið til virkjunar. Það er ekki gert ráð fyrir, að öll sú orka, sem virkja á, verði tekin í einu, heldur alt að því í þrennu lagi. Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, geta menn sjeð, að umsóknin er ekki út í loftið, og því er óskandi, að hið háa Alþingi greiði svo vel fyrir málinu sem kostur er á.

Vera kann nú, að mönnum sje ekki vel ljóst, til hvers á að nota raforkuna. Leyfisbeiðandi á námurjettindi í Önundarfirði og hann hyggur, að þar sjeu sæmilegir möguleikar til námurekstrar, járn- og aluminiumvinslu. Jeg hefi átt tal við þá menn, er best vit hafa á þessum efnum hjer á landi og kunnugir eru staðháttum, og fengið þær upplýsingar, að það, sem forgöngumenn fyrirtækisins hafa gefið upp um það, sje á rökum bygt. En þessi hlið fyrirtækisins er ekki enn fullrannsökuð. Er og mjög skiljanlegt, að menn vilji ekki leggja út í allan þann kostnað, sem af slíkri rannsókn leiðir, nema þeir sjeu vissir um, að sjerleyfið fáist, ef góður árangur verður af rannsókninni. Þó virðist af rannsókn, sem þegar hefir verið gerð, allgóð skilyrði fyrir járnvinslu. En það er til annar möguleiki, og hann er sá, að vinna aluminium úr leir. En aluminiumvinsla mun vera hin þýðingarmesta raforkumálmiðja, sem nú er stunduð. Skilyrði eru hjer góð, ekki síður en annarsstaðar, þar sem slík iðja er rekin.

Aftur á móti er þar óálitlegri saltpjetursvinslan, en hún gæti þó komið til greina á Suðurfjörðunum, þar sem kalksteinninn er nærtækur.

Enn sem komið er er ekki hægt að gefa fullnægjandi skýrslu um þessa möguleika, en hinir fróðustu menn í þessum efnum gera sjer vonir um, að hjer sje um mikla möguleika fyrir framtíðariðnað í landi voru að ræða. En til þess að leggja út í þann kostnað, sem fullkominni rannsókn fylgir, þarf mikið fje, og verða menn þess vegna að eiga það víst, að sjerleyfi til orkuvers og iðjuvers fáist, ef rannsóknin ber á annað borð góðan árangur.

Nefndin hefir gert nokkrar breytingar á frv. því, er henni var sent, en jeg hirði þó ekki að greina frá þeim. En skylt er að geta þess, að nefndin mun flytja fleiri brtt. við frv., og munu þær koma fram áður en síðari hl. umr. er lokið.

Í frv. er í sumum greinum veitt undanþága frá gildandi vatnalögum, t. d. um búsetuskilyrði stjórnarinnar. Getur nefndin fallist á það, að erfitt muni reynast að útvega fje án þess að eigendurnir hafi fult vald yfir því, hvernig fyrirtækið verður rekið, enda hefir jafnan verið gert ráð fyrir því, að nokkrar undanþágur yrðu gerðar frá vatnalögunum í sambandi við hið fyrsta sjerleyfi, sem gefið væri. Þeir, sem gera fyrstu virkjunartilraunina í stórum stíl, munu eiga við ýmsa erfiðleika að stríða, sem ekki bitna á öðrum sjerleyfishöfum; er á eftir koma, þegar hin fyrsta virkjun hefir sýnt, að fossaiðnaður getur hjer verið arðvænlegur.

Nefndin telur æskilegt, að þessi virkjun komist í framkvæmd hið fyrsta, enda eru þessi mál ekki komin á það stig hjá oss, að draga þurfi úr virkjunarlönguninni, eins og var t. d. í Noregi um eitt skeið, meðan miljónir hestafla renna hjer til sjávar án þess að nokkuð sje nýtt. Virðist því heldur ástæða til þess að greiða fyrir útvegun fjár til virkjunar, og einkum í þeim landshlutum, þar sem reka þarf fossaiðnað í stórum stíl til þess að fá nægilega mikla og hæfilega ódýra raforku fyrir nærliggjandi hjeruð.

Þá er undanþága í 5. gr. frá eignarskatti, tekjuskatti, útsvari og hærra útflutningsgjaldi en nú er og öðrum gjöldum, er á kunna að verða lögð. En nefndin mun flytja brtt. við þetta ákvæði, svo ótvírætt sje, að hjer sje átt við önnur samskonar gjöld, er á kunna að verða lögð. En fyrir þessar undanþágur greiðir svo fyrirtækið fyrst 3 kr., en síðar 5 kr. af hverri nýttri hestorku. Verður þetta mikið fje, ef alt er virkjað, sem virkja á. En þar sem undanþága er veitt frá útsvari, verður að skifta gjaldinu milli ríkissjóðs og sveitarsjóðs, og mun nefndin flytja till. um það. Virðist rjett, að sveitarsjóður fái 1/3, en ríkissjóður 2/3 hluta af gjaldinu. En þá þarf og ákvæði um það, hvernig hluta sveitarsjóðsins skal skift milli hinna einstöku sveitarfjelaga. Mun nefndin einnig bera fram till. viðvíkjandi því.

Skattar og gjöld af slíkum fyrirtækjum sem þessum eru ætíð hafðir mjög lágir víðsvegar um heim. Er mjer t. d. kunnugt um, að svo er í Svíþjóð. Þar er leitast við að veita þessum fyrirtækjum góð skilyrði. En ef virkjanirnar eru of örar — en því er ekki til að dreifa hjer á landi — er ástæða til þess að hækka skattana og gjöldin. Það er augljóst, að ástandið í þessum efnum hjá oss er svo, að við ættum heldur að greiða fyrir þessum fyrirtækjum en tefja fyrir þeim.

Það er ekki óeðlilegt, þó að fjelagið sæki um undanþágu frá jafnóákveðnu gjaldi og útsvörin eru, en bjóði ákveðið gjald í staðinn, sem miðað sje við hestorku. Aftur á móti er ekki eins eðlileg undanþágan frá tekju- og eignarskatti; en þegar annað gjald kemur í staðinn, skal jeg fyrir mitt leyti ekki hafa á móti því, að slík undanþága verði veitt. 5 kr. af hverri hestorku er nærri lagi, ef gert er, að hestorkan gefi af sjer 30–50 kr. á ári. Virkjunarkostnaður hverrar hestorku má gera ráð fyrir, að sje um 300–500 kr. Slík fyrirtæki sem þetta eru ekki talin stórgróðafyrirtæki, heldur er hins vænst, að þau gefi jafna, en fremur lága rentu ár frá ári. Þau eru bygð á öruggum, en hlutfallslega lágum arði. Til þessa þarf að taka tillit, þegar um afgjöld er að ræða, því að þótt hjer þurfi miljónir í stofnfje, er hinn hlutfallslegi arður langt frá því að vera hár. Í vatnalögunum eru nákvæm ákvæði um sölu á rafmagni til sveitarfjelaga og útreikning framleiðslnkostnaðar, en þó telur nefndin hentugt að setja ákveðið hámarksverð, og mun og verða flutt brtt. um það.

Nefndin lítur svo á, að hjeruð þau, sem nærri liggja og haft geti gagn af virkjuninni, eigi að fá frá orkuverinu það rafmagn, sem þau þarfnast, bæði til ljóss, hita og suðu. En eftir landslagi og fólksfjölda virðist þörfin ekki vera svo mikil, að örðugt muni að fullnægja henni. Mun rjettast, að stjórnin ákveði í reglugerð, þegar sjerleyfið er veitt, hve mörg hestöfl af hverju hundraði eigi að standa almenningi til boða, en þá hundraðstölu ber auðvitað að miða við nákvæmlega áætlaða þörf hjeraðanna: Það kynni ef til vill að vera þægilegra fyrir fjelagið, ef virkjunin byrjaði smátt, að hestaflatalan, sem skylt er að selja, fari vaxandi á nokkurra ára fresti úr 200 upp í 400 og 600 o. s. frv. Um þetta atriði er ekki til nákvæm áætlun, og ætlast því nefndin til þess, að stjórnin gæti þess vel, að viðkomandi hjeruðum verði trygð raforka til allra heimilisþarfa og smáiðnaðar.

Nefndin er þessu frv. mjög fylgjandi, ekki síst vegna þess, að á Vestfjörðum hagar svo til, að þar getur einmitt þrifist stórvirkjun, en vart smávirkjun. Smáorkuver eru lítt hugsandi. Eina ráðið til þess að fullnægja orkuþörfinni er að gera stórvirkjun; verður hagsmunavonin að byggjast á þeim iðnaði, sem rekinn er í sambandi við hana, en ekki á sölu rafmagns til almennings. Og þegar við nú flytjum inn allan aflgjafa, svo sem olíu og kol, en hestöflin renna til sjávar svo miljónum skiftir, þá virðist full ástæða til þess að afgreiða slíkt mál sem þetta, þar sem þar að auki er allgóð von um framkvæmdir.

Eins og jeg gat um í upphafi máls míns, getur hvorki nefndin nje hv. þm. fengið örugga vissu um málmvinslumöguleikana á þessum svæðum. Það liggur ekki annað fyrir en það, sem innlendir sjerfræðingar hafa hjer um sagt, en þeir lýsa því eindregið yfir, að um mikla möguleika sje að ræða. Hygg jeg því, að háttv. Alþingi þurfi ekki að óttast, að verið sje að gabba það. En þó að svo sje nú, að hjer sje ekki um beina vissu að ræða, getur þingið samt verið óhrætt, því að það veitir sjerleyfið sem fulltrúi þeirra hjeraða, sem virkjunin er framkvæmd í, og ef sjerleyfið er afgreitt með þeim skilyrðum, sem nauðsynleg eru fyrir öryggi hjeraðanna og landsins. í heild sinni, getur þingið haft góða samvisku.

Óska jeg svo, að þeir þm., sem hafa í hyggju að bera fram brtt., komi með þær svo fljótt sem þeir geta, og einnig mun nefndin leggja fram sínar brtt. bráðlega, svo að ekki verði ástæða til að kvarta um ónógan umhugsunarfrest. Annars er ekki lengra síðan en frá síðasta þingi, að vatnalögin voru afgreidd, og ætti hv. þm. því ekki að vera ókunnugt um þessi mál. Þá býst jeg við, að þeir hafi sett sig svo inn í vatnamálin yfirleitt, meðan starfað var að þeim á undanförnum þingum, að þeir eigi ekki sjerstaklega ilt með að átta sig á þessari sjerleyfisumsókn, því að hún byggist að mestu leyti á þeirri löggjöf, sem nýlega hefir verið sett.