17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil taka undir með þeim tveim hv. ræðumönnum, sem nú hafa talað, hv. frsm. (ÁÁ) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um það, að þetta mál hafi fengið óvanalega afgreiðslu. Það var látið fara umræðulaust til 2. umr., og jeg teldi hreint og beint óforsvaranlegt, ef nú ætti þegar að fara að greiða atkv. um jafnmikið og afleiðingaríkt mál. Hv. frsm. hefir gert sitt til þess að bæta úr þessu með því að óska, að 2. umr. verði tvískift, svo hægt væri að bera fram athugasemdir og brtt. Jeg vil taka fram, að þótt jeg beri fram ýmsar athugasemdir, þarf ekki að skoða það svo, að jeg ætli endanlega að bregða fæti fyrir frv., verði þær varúðarráðstafanir gerðar, sem jeg tel nauðsynlegar. En hjer er um að ræða svo stórt mál, að jeg tel, að frá því þurfi að ganga alveg sjerstaklega vel. Ef fyrstu sporin eru ekki rjett stigin, getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Jeg kem þá með nokkrar athugasemdir, sem jeg skora á nefndina að taka til athugunar. Það gladdi mig, að hv. frsm. vjek að því, að nefndin þyrfti að breyta einu atriði í 5. gr. Auk ýmissa undanþága frá opinberum gjöldum er kveðið svo að orði, að sjerleyfishafi skuli undanþeginn „öðrum gjöldum, er á kunna að verða lögð“. Það gat ekki komið til nokkurra mála að láta þetta standa óbreytt. En úr því að nefndin sjálf ætlar að taka þetta til athugunar, fer jeg ekki um það fleiri orðum. Það eru fleiri atriði í 5. gr., sem ástæða væri til að athuga nánar. Þar stendur, að sjerleyfishafi skuli undanþeginn hærra útflutningsgjaldi en nú er. Jeg held, að það útflutningsgjald, sem nú er, gildi aðeins um einstakar vörutegundir. Þarna kynnu að verða framleiddar nýjar vörutegundir, sem ekkert útflutningsgjald er á nú, og ef þetta stæði óbreytt, skilst mjer, að slíkar vörur yrðu undanþegnar útflutningsgjaldi. Ef til vill er hjer um einhvern misskilning hjá mjer að ræða, en jeg vildi aðeins vekja athygli nefndarinnar á þessu. Það er enn eitt í þessari sömu grein, sem jeg vildi minnast á. Þar stendur, að í stað þeirra fríðinda til handa sjerleyfishafa, að losna við gjöld þau, sem talin eru, skuli hann „gjalda af fyrirtækjunum 8 krónur árlega af hverri nýttri hestorku fyrstu 3 árin eftir að mannvirkjunum, sbr. 1. og 6. gr., er lokið, en síðan 5 krónur árlega af hverri nýttri hestorku.“

Eins og þetta er orðað, er ljóst, að ekki á að byrja að greiða neitt gjald fyr en mannvirkjunum er „lokið“, en í 6. gr. er gert ráð fyrir, að þeim þurfi ekki að vera lokið fyr en eftir 7 ár. Sjerleyfishafi á því ekki einungis að geta verið laus við öll venjuleg gjöld 7 fyrstu árin, heldur einnig þessi sjerstöku gjöld. Við þetta bætist, að samkv. niðurlagi 6. gr. er ráðherra heimilt að lengja þennan frest. Jeg skora á nefndina að athuga þetta atriði.

Út af þessum atriðum, sem jeg hefi nefnt, og út af því, sem hv. frsm. lýsti yfir, að fjhn. hefði margt við frv. að athuga, vildi jeg leyfa mjer að spyrja, hvort hv. fjhn. telur sig hafa haft nægan tíma til að athuga þetta mál svo vel sem skyldi. Í svona máli má ekki hrapa að neinu, en það er vitanlegt, að hv. fjhn. hefir verið störfum hlaðin.

Jeg ætla að drepa á eitt atriði, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) einnig mintist á. Það kemur ekki fram í greinargerð frv., hvað áætlað er, að margt manna þurfi til þess að reisa og reka þessar stöðvar, og ekki heldur, hve gert er ráð fyrir, að þörf sje margra útlendinga. Jeg óska, að nefndin gefi sem glegstar upplýsingar um þetta atriði. Það getur haft mikil áhrif á atvinnulífið hjer, ef þarna verður um miklar framkvæmdir að ræða. Það þýðir ekki að bera okkur saman við Norðmenn og Svía í þessu efni, þar sem um miklu fjölmennari og sterkari þjóðir er að ræða. Íslendingar hafa ástæðu til að vera varkárari.

Þá er enn eitt. Mjer fellur ekki vel, að fyrir þessu þingi skuli liggja 3 frv., þar sem verið er að bjóða fram af íslenskri hálfu sjerstök fríðindi. Verst er þó, þegar þetta er gert að tilefnislausu, eins og með bankafrumvarpinu. Þetta frv. er þó bundið við ákveðin verk. Jeg mun hafa sterka tilhneigingu til þess að flyta tillögur um, að jafnframt því, sem þessi rjettindi eru boðin fram, verði krafist tryggingar frá þeim, sem sækja, fyrir því, að eitthvað verði gert. Eftir þessu frv. mega líða þrjú ár frá því sjerleyfið er veitt þar til byrjað verður á framkvæmdum. Mjer þykir fyllsta ástæða til að heimta, að umsækjendur leggi fram fje til tryggingar því, að ekki sje verið að gabba okkur.

Hv. frsm. og hv. 1. þm. S.-M. hafa komið inn á það, sem jeg tel sjálfsagt, að ef sjerleyfi verður veitt, sjeu viðkomandi hjeruð látin njóta sjerstakra kostakjara að því er rafmagn snertir og önnur hlunnindi.

Jeg get að vissu leyti tekið undir með háttv. frsm., að æskilegt væri, að virkjun gæti komist á. En við þurfum um leið að hafa vissu fyrir því, að við sjeum ekki að hleypa okkur út í neina ófæru. Jeg held, að þetta sje ekki nægilega trygt með frv. Jeg get ekki gengið að því á þeim grundvelli, sem það nú er.