10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1927

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins mjög stutt athugasemd, sem jeg ætla að gera til að bera af mjer sakir, sem háttv. 2. þm. Skagf. hefir leyft sjer að bera á mig. Þessar sakir eru nú hvorki meiri nje minni en það, að jeg hafi spilt svo störfum samgmn. um mörg ár, að enginn árangur hafi orðið af þeim. Mjer finst hv. þm. reiða nokkuð hátt til höggs með þessu og hittir þá líka jafnframt meðnefndarmenn mína, sem lítinn sóma munu telja sjer með þessu sýndan. Annars er þetta hnútukast hv. þm. tæplega svaravert og væri rjéttara að fá upplýsingar hjá fleirum en hv. 2. þm. Skagf., sem starfað hafa með mjer í samgmn., og láta þá bera vitni. Meðan hv. 2. þm. Skagf. er einn um þessa ásökun, skoða jeg hana eins og órökstuddan sleggjudóm og læt mjer í ljettu rúmi liggja. Jeg skil það vel, að hv. þm. er móðgaður yfir þeirri samlíkingu, sem jeg gerði á honum og indverskum fakír, og vill gjarnan reyna að hefna sín. Hv. þm. er samt ekki fjarri því, að hann kunni eitthvað fyrir sjer eins og fakírarnir, og segist hann lengi hafa einbeitt huganum í þarfir föðurlandsins ti1 þess að finna upp einhver fjárhagsleg bjargráð fyrir ríkissjóðinn, og þau eiga að vera öllum sýnileg. Líklega finst honum eftir drýgindunum að dæma, að nær 8 miljóna tekjuafgangur landsreiknings á tveim síðustu árum sje árangur þessa starfs, einmitt á því tímabili, sem þessi hv. þm. hefir lagt sig mest í bleyti í þarfir föðurlandsins með einbeitingu hugans. Jeg vona, að hv. þingmönnnm sje það ljóst, að hjer er um þrekvirki að ræða og alveg óvenjulegan árangur af starfi þessa nýja fakírs. Jeg ann honum þess vegna vel sjálfshólsins og trúarinnar á það, hvað mikið hann hafi afrekað í þágu föðurlandsins, og getur hann svo í friði setið í fakírsstöðunni og horft á sinn eiginn nafla fyrir mjer.

Háttv. þm. hefir tvívegis verið að reyna að fleyta sjer á fyndni með því að minna á skrípamynd af mjer, sem birt var í sorpblaði einu hjer í bænum í fyrra, þar sem jeg var sýndur með upprjetta hendi og „nei“ í lófanum. Jeg hefi enga ástæðu til að firtast við þetta. Jeg hafði gaman af þessum vindhöggum og get sagt þessum hv. þm. það, að einmitt þessi skrípamynd hefir orðið mjer til hins mesta álitsauka úti um sveitir landsins, því að menn hafa litið á myndina og umsögn blaðsins eins og órækan vott þess, að stefnufesta og drengileg einurð lýstu sjer í því að rísa móti drotnandi skoðun og segja „nei“, þegar við átti.

Jeg ætla svo að lofa þessum hv. þm. að njóta í næði þeirrar trúar, að hann hafi verið þarfastur starfsmaður í þinginu og hafi veitt landsföðurlegasta aðstoð við störf þess. Það er nú komið fram yfir miðnætti og á ekki vel við að lengja þennan orðaleik. Læt jeg því staðar numið að sinni. Ef til vill gefst síðar tækifæri til að athuga fakírsstarfið og fljótandi skurðgröfu betur.