17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. fjhn. (ÁÁ) bað mig um að segja álit mitt í þessu máli og hvort jeg teldi það vera borið fram í rjettu formi. Jeg skal gjarnan lýsa því yfir, að jeg tel svo vera. Jeg sje ekkert á móti því, að ákveðið sje með sjerstökum lögum, að sjerleyfi skuli veitt gegn sjerstökum skilyrðum auk þeirra, sem tiltekin eru í sjerleyfislöggjöfinni. Jeg skil ekki, hvers vegna hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem er þessum málum öllum svo nauðakunnugur, skuli álíta, að hjer sje eitthvað undarlegt eða óleyfilegt á ferðinni. Hann vitnaði í 7. gr. sjerleyfislaganna, sem kveður á um, að leita skuli samþykkis Alþingis til virkjunar, sem fer fram úr 25 þús. hestöflum. En það er ekkert því til fyrirstöðu, að þessa samþykkis sje leitað með sjerstöku lagafrv., því samkv. 7. gr. tjeðra laga er ekki nóg að fá samþ. þál. um þessi efni. Þá vitnaði háttv. þm. (SvÓ) einnig í 36. gr. sömu laga, en þar er líka aðeins talað um samþykki Alþingis, en ekkert tekið fram um það, í hvaða formi þess skuli leitað. Jeg álít því, að sjerleyfislögin feli engin ákvæði í sjer, sem banni, að sjerstakt frv. sje borið fram um þetta efni.

Þá talaði háttv. þm. um fordæmi, sem þessi lög myndu skapa, ef frv. yrði samþykt. En jeg vil minna hann á, að í umræðunum um sjerleyfislögin í fyrra var það tekið fram, að fyrsta eða fyrstu sjerleyfin, sem veitt yrðu, mundu verða veitt með betri kjörum en þau sjerleyfi, sem síðar yrðu gefin út. Reynist fyrirtækið vel og sjerleyfishafar hafi góðan hag af því, er sjálfsagt að herða á skilyrðunum í næsta skifti, en ef fyrsti sjerleyfishafi skaðast á fyrirtækinu, væri frekar ástæða til að slaka á einhverjum skilyrðum en herða þau. Hvernig sjerleyfi þetta verður, ef frv. verður samþ., er ekki hægt að segja fyrirfram, því það er erfitt að ræða málið á þessu stigi þess, þegar hv. frsm. fjhn. gerir ráð fyrir breytingum frá nefndarinnar hálfu á frv. Jeg ætla því ekki að ræða frv. að svo stöddu, en vil aðeins geta þess, að jeg er hlyntur beislun fallvatna landsins. Þau hafa nú runnið ónotuð til sjávar um þúsundir ára, og því finst mjer tími til kominn að notfæra sjer eitthvað af þeim krafti, sem verið hefir ónotaður öldum saman. Jeg tel það skemtilega tilhugsun að hafa 40–50 þús. hestorkur starfandi alt árið um kring og að þeim sje varið til starfa, sem miða þjóðfjelaginu til þrifnaðar; en hitt miður skemtilegt, að vita af allri þeirri orku, sem daglega fer forgörðum til ónýtis ár eftir ár. Jeg ber virðingu fyrir þeim mönnum, sem vilja ráðast í slík fyrirtæki og þetta og hætta fje sínu til þess að ryðja braut nýjum atvinnuvegum í landinu, og jeg sje ekki, að ástæða sje til að leggja stein í götu þeirra, meðan þeir fara ekki fram á neina ósanngirni og krefjast ekki á annan hátt of mikilla hlunninda.

Það hefir verið talað um það af einhverjum háttv. þm., að málið hefði fengið óvenjulega afgreiðslu, þar sem það hafi gengið umræðulaust til 2. umr. Nú hefir verið bætt úr því með því að tvískifta þessari umræðu samkv. tilmælum háttv. frsm. fjhn. (ÁÁ). Þetta kemur því alveg í sama stað niður, enda er það ekkert óvenjulegt, þó að mál gangi umræðulaust eða lítið rædd gegnum 1. umr.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) mintist á útvarpssjerleyfið og lögin um Flóaáveituna og hann taldi þau vera hliðstæð mál þessu máli, sem jeg þó ekki fæ sjeð að sje, allra síst Flóaáveitan. Og þó að einhver óánægja hafi orðið út af sjerleyfi því, sem háttv. þm. nefndi, getur það ekki tafið neitt þetta mál.

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði nokkur orð áðan og mjer fanst að það andaði fremur kalt frá honum í garð þessa máls, og jeg verð að segja það, að skýring hans á 5. gr. bar ekki neinn vott um velvilja til þessa máls. Jeg get lýst því yfir, að jeg tel skýringu hv. frsm. fjhn. (ÁÁ) vera rjetta, en ef fleiri eru en hv. þm. Str., sem eru í vafa um þetta atriði, má auðvitað gera það ljósara fyrir þeim. En jeg get ekki verið í neinum vafa um, að það, sem flutt er út, eru íslenskar afurðir, og heyra þær því undir ákvæði útflutningslaganna; en háttv. þm. Str. virðist ekki skilja þetta. Hann áleit, að lögin um útflutningsgjald ættu aðeins við tilteknar vörutegundir, en hann man þá ekki eftir nýrri lögunum, sem leggja verðtoll á allar íslenskar afurðir, sem út eru fluttar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. talaði um, að tryggingarfje væri hið allra minsta, sem hægt væri að heimta af sjerleyfisbeiðendum, til að tryggja það, að ekki væri um gabb eitt að ræða, eða að eitthvað yrði úr framkvæmdum. En jeg get upplýst það, að samkvæmt því, sem kemur í ljós í skýrslum þeim, sem umsækjendur hafa lagt fram, hafa þeir þegar lagt stórfje í undirbúning þessa máls. og það gera menn ekki að jafnaði nema alvara sje í því að ráðast í framkvæmdir. Ef þeir vilja undirgangast að setja einhverjar tryggingar, er það auðvitað gott, að þeir geri það, en þó má ekki láta málið stranda á því atriði einu, ef þeir eru ófúsir að setja tryggingar. Það væri gott að fá upplýsingar um þann vinnukraft, sem þörf verður fyrir við þessi fyrirtæki, en jeg held, að það þurfi ekki að óttast, að hann verði svo mikill, að hætta geti stafað af. Jeg slæ þann sama varnagla í þessu efni og háttv. frsm. fjhn. (ÁÁ) en það getur líka verið hættulegt að krefjast þarna innlends vinnukrafts eingöngu; því að laða fólkið burt frá hinum venjulegu atvinnuvegum í stórhópum, getur ekki orðið án skaða og hnekkis þeim atvinnugreinum, sem fyrir því verða.

Mjer kom það allundarlega fyrir að heyra, að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) taldi sig eiga erfitt með að átta sig á þessu máli. Hvað mættum við hinir þá segja, ef svo er um hann? Hann hefir í mörg ár starfað í fossanefndinni og unnið að þeirri löggjöf allri, og hann ætti þess vegna með visku sinni að geta boðið okkur öllum birginn. Nei, jeg held raunar, að hið sama sje nú að koma fram hjá þessum háttv. þm. og efst var hjá honum í fyrra, er sjerleyfislögin voru á ferðinni. — hann vildi ávalt tefja fyrir málinu og leitaði ýmsra bragða til þess, taldi sig ekki viðbúinn að afgreiða málið, þyrfti að athuga það betur til þess að geta áttað sig á því o. s. frv., enda þótt hann stæði margfalt betur að vígi til þess en aðrir, vegna margra ára starfsemi sinnar í fossanefndinni.