17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg er þegar búinn að ná tilganginum að nokkru með minni ræðu, þar sem jeg beindi ýmsum athugasemdum og fyrirspurnum til fjhn., með því, að hv. frsm. hefir sagt, að nefndin vildi athuga frekar þau atriði, sem jeg benti á. En hinsvegar hafa fallið ýms orð hjer, sem jeg vildi aðeins víkja að. Bæði hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hæstv. atvrh. voru hálfpartinn að ámæla okkur hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fyrir að tala um óvanalega afgreiðslu málsins. Það gerðum við reyndar, en sögðum svo báðir á eftir, að frsm. hefði bætt úr þessu með því að fá þessari umræðu tvískift. Svo að jeg skil ekki, að sjerstaklega þurfi að deila út af þessu. Við höfum og ekkert um þetta ofmælt.

Aðeins einu atriði, sem jeg mintist á áður, ætla jeg að víkja að, þar sem sumir hv. ræðumenn hafa álitið mig óþarflega tortrygginn gagnvart ákvæðum 5. gr., hvenær sjerleyfishafi þurfi að greiða gjaldið. Jeg sagði, að ef mannvirkjum væri ekki lokið innan 7 ára, þá slyppi leyfishafi við að greiða nokkurt gjald þann tíma. Jeg vil benda á, að þetta stendur svo í frv. Eftir að mannvirkjunum er lokið á að greiða gjaldið, samkv. 5. og 6. gr., en fyr ekki. En mannvirkin eru talin upp í 1. gr. En sem sagt, það gleður mig, að nefndin leggur þennan skilning í þetta. En jeg verð að líta svo á, að það hefði alls ekki verið hægt að skýra þetta eins og nefndin segir, þegar þetta er orðið að lögum, ef ekki hefði fengist stuðningur frá þessum umræðum. Þetta er þá ekki þýðingarlaust atriði og nauðsynlegt að hafa glöggar línur. Álít jeg því tryggilegra að breyta þessu í frv.

Þá vil jeg aðeins mótmæla einu atriði hjá hv. 2. þm. Rang., að þessi deild hafi í fyrra stórskemt sjerleyfisfrv. Mjer kom þetta ekki á óvart frá hv. þm. samkv. aðstöðu hans í fyrra. En frá mínu sjónarmiði stórbatnaði frv. hjá hv. deild. Og jeg vona, að hv. deild verði nú í samræmi við sjálfa sig, að hún afgreiði þetta mál þannig, að forsvaranlega sje sjeð fyrir því hvað hagsmuni landsins snertir.

Það, sem aðallega olli því, að jeg stóð upp, voru orð, sem hæstv. atvrh. ljet falla í minn garð. Hann sagði, að mínar athugasemdir væru ekki velviljaðar. Já, það er eftir því, hvernig það er skilið. Jeg býst við, að hæstv. ráðh. meini, að mínar athugasemdir hafi ekki verið fyrst og fremst velviljaðar því fjelagi, sem hjer sækir um að fá margfaldar undanþágur frá íslenskum lögum. Það er rjett. Því að jeg álít mína skyldu hjer á Alþingi ekki fyrst og fremst vera þá, að vera velviljaður þeim útlendu mönnum, sem sjerstaklega vilja fá undanþágur frá íslenskum lögum. Jeg álít mína fyrstu þingmannsskyldu að vera velviljaður þeim ráðstöfunum, sem jeg álít nauðsynlegar til þess að tryggja heill þessa lands. Hinsvegar tók jeg það fram í ræðu minni, að jeg vildi alls ekki segja, að jeg ætlaði að verða á móti því að afgreiða frv. með vissum skilyrðum. Ef jeg fæ það í það form, sem jeg álít forsvaranlegt, þá verð jeg með. En mesta áhersluna vil jeg leggja á það, sem jeg tel nauðsynlegast og farsælast fyrir alda og óborna á þessu landi.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) kvað hafa andað kalt frá mjer í garð þessa frv. Jeg er ekki vanur að eiga í deilum við hv. 2. þm. Rang. og mun ekki heldur stofna til slíks nú. En það getur engum dulist, að það er um allmikinn skoðanamun að ræða milli okkar í þessu máli. Jeg get ekki fyrst og fremst orðið glaður af því, að útlendir menn líti hýru auga til okkar lands og vilji fá sjerrjettindi. Jeg lít fyrst og fremst á hitt, að geta gert ráðstafanir til þess, að eitthvað gott leiði af fyrir landsins eigin börn. Og þegar nú liggja fyrir þinginn hvorki meira nje minna en þrjú frv. um það að veita útlendum mönnum beinlínis og óbeinlínis sjerstök hlunnindi og fríðindi, þá ætla jeg að una því vel að eiga þau eftirmæli um mín afskifti af þeim málum, að jeg hafi ekki lagt fyrst og fremst áherslu á að vera útlendingum velviljaður.

Hv. 2. þm. Rang. mintist á eitt hliðstætt mál frá fortíðinni, nefnilega þegar Íslandsbanka voru veitt sjerstök hlunnindi. Það er nú ekki einungis um það mál að segja, hvernig það fór endanlega. Hinu má heldur ekki gleyma, að þeir menn, sem þá fyrst og fremst voru velviljaðir þeim útlendu mönnum, sem sóttu um leyfi að stofna banka, þeir vildu fara lengra en þingið gekk inn á. Þeir heimtuðu einokun sjer til handa um peningamálin, þeir heimtuðu að Landsbankinn væri lagður niður.

Jeg ætla að vera glaður yfir að eiga svipuð eftirmæli um afskifti mín af þessu máli og Magnús Stephensen, sem bar gæfu til að vera ekki svo velviljaður að samþykkja það, að banki landsins væri lagður niður vegna hagsmuna útlendinga.