10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir 1927 voru tekjurnar áætlaðar um 10 miljónir og 442 þús. kr., en gjöldin 10 milj., 397 þús. kr. Það var ætlun stjórnarinnar, þegar hún samdi frv., að tekjurnar væru áætlaðar svo háar sem rjett og forsvaranlegt þætti. Að vísu var þá ekki vitað til fulls um niðurstöðuna af rekstri ríkissjóðs 1925. Og meðal annars vegna upplýsinga, sem síðar hafa komið, lagði hv. fjvn. Nd. til og fjekk samþykta hækkun á tekjuhlið í 2. gr. fjárlagafrv., svo nam um 310 þús. kr. Að meðtöldum nokkrum smábreytingum er þá tekjuhliðin áætluð nú 10 milj. 834 þús. kr., og er það sem næst jafnhátt og tekjurnar reyndust 1924. En tekjustofnarnir hafa lítið breyst frá því, sem þá var. Árið 1925 reyndust tekjurnar miklu hærri, en það ár hygg jeg að megi skoða sem algert undantekningarár, og auk heldur fremur djarft áætlað að gera ráð fyrir jafnmiklum tekjum 1927 og 1924. Til þess liggja tvær ástæður. Hin fyrri er sú, að verð á aðalútflutningsvöru landsins er mjög lágt, og ekki sjáanlegt annað en að það verði lágt á þessu ári. Og þótt það lagfærist eitthvað á næsta ári, þá munu tekjurnar 1927 mótast af þeirri óhagstæðu verslun, sem út lítur fyrir að verði nú á þessu ári, að minsta kosti hvað snertir sjávarútveginn. Hin ástæðan fyrir því, að það sje mjög djarft að áætla tekjur ríkissjóðs 1927 eins hátt og þær reyndust 1924, er sú, að peningar eru miklu verðmeiri nú en 1924. Nú er krónan ca. 81½ eyrir, og allir vona, að hún megi frekar hækka en lækka. En meðalverð íslenskrar krónu 1924 var lítið eitt meira en 50 aurar. En allir verða að gera sjer það ljóst, að þegar peningar vaxa í gildi, þá má yfirleitt ekki gera ráð fyrir því, að sama krónutala falli til og áður. Það má segja þetta líka á annan hátt, sem sje þann, að þegar peningar hækka, þá er sama krónutala þyngri skattur en áður.

Nú hafa gjöldin verið hækkuð í hv. Nd. um 635 þús. kr., svo eins og frv. liggur fyrir, þá er tekjuhalli, sem nemur ca. 198 þús. kr. Gjaldahliðin var nú af stjórninni áætluð þannig, að sjálfsagt þótti, að jafnframt því sem tekjurnar voru áætlaðar með sem fylstri upphæð, þá bæri að taka inn í frv. fjárframlög til verklegra framkvæmda, eftir því sem fært þótti. Og satt að segja hugsaði jeg, þegar jeg hvarf að þessu ráði, að þá ætti þingið að þessu sinni að gæta þess að láta meðferð fjárlaganna ekki vera í því einu fólgna að hækka tekjuhliðina og bæta við nýjum gjöldum, heldur líta eigi síður á þann möguleika, hvort ekki mundi unt að lækka útgjöldin samkvæmt stjórnarfrumvarpinu, skifta um eða draga úr, ef nauðsynlegt þætti. Í hv. Nd. gekk meðferð frv. eingöngu að kalla út á það að hækka útgjöldin í stjfrv. Jeg vil nú beina þeim tilmælum til þessarar hv. deildar, að hún gæti þess að stilla í hóf um útgjöldin í heild sinni, jafnframt því sem hún athugaði það, hvort ekki væri ráðlegt að láta eitthvað bíða af því, sem stjórnin eða hv. Nd. hafa lagt til. Láta það bíða annaðhvort af því, að hún treysti sjer ekki til að láta framkvæma eins mikið og farið hefir verið fram á, eða þá af því, að henni sýnist annað nauðsynlegra.

Að svo mæltu vil jeg fela þetta frv. meðferð hv. deildar með þeim tilmælum, að því verði vísað til fjvn.umr. lokinni.