27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefir ekki náð saman til þess að ræða um brtt. þær á þskj. 436, sem liggja hjer fyrir, og taka afstöðu til þeirra. En eftir því, sem fram kom við 2. umr. þessa máls, þykist jeg þó mega ætla, að nefndin leggist móti 1. brtt., enda er þar í raun og veru um sama efni að ræða og fólst í brtt., sem feld var við 2. umr. og fjhn. lagðist þá á móti.

Um afstöðu nefndarinnar til 2. brtt. skal jeg ekkert fullyrða. Fyrir mitt leyti legg jeg hvorki til nje frá um hana, og mun nefndin því hafa óbundnar hendur um hana.

Þá er 3. og síðasta brtt. á sama þskj., um 50 þús. kr. upphæð, er leyfishafi leggi fram til tryggingar því, að efndir verði á virkjun og sjerleyfisskilyrðum. Um hana er það að segja, að jeg tel, að jeg megi hiklaust lýsa því yfir, að fjhn. sje öll á móti því, að nokkur slík breyting verði gerð. Við 2. umr. var brtt. um sama efni feld. Að vísu var þar um 100 þús. kr. upphæð að ræða, enda er nefndinni ekkert aðalatriði, hve fjárhæðin sjálf er há, og þó að upphæðin sje nú færð niður um helming, er nefndin á móti tillögunni eftir sem áður. Jeg þarf vart að minna á það, að skoðun nefndarinnar er sú, að í fyrirtækið sje þegar búið að eyða það miklu fje, að Alþingi gæti vansalaust selt fjelaginu sjerleyfi í hendur án frekari skilyrða, sem ekki er einusinni vikið að í sjerleyfislögum. Það, sem gert hefir verið af hálfu fjelagsins til undirbúnings virkjun, öflun rjettinda, mælingar og áætlanir, sýnir, að fjelagið hefir góðan vilja til þess að virkja þau fallvötn, sem frumvarpið nefnir, og að gera orkuna arðhæra. Ef um tryggingarfje væri að ræða, þá er 50 eða 100 þús. kr. engin trygging fyrir því, að virkjunin yrði hafin, og það mundi sama verða uppi á teningunum, þó upphæðin væri hærri, t. d. 350–500 þús. krónur. Jeg segi þetta aðeins til þess að sýna fram á, að þessi 50 þús. kr. fjárhæð, sem hv. 1. þm. S.-M. ætlast til, að fjelagið leggi fram, felur ekki í sjer neina þá tryggingu, sem hann ætlast til. Nefndin mun því ekki leggja til, að fjelagið setji neina slíka tryggingu, sem felur í sjer tortrygni eina, en ekki trygging.

Um fyrirtækið að öðru leyti hefi jeg við 2. umr. gefið þær upplýsingar, er nefndinni voru kunnar. Hinsvegar skal jeg taka það fram eins og þá, að nefndin viðurkennir, að trygging sje ekki fyrir því, að úr framkvæmdum geti orðið nú þegar — og telur enga slíka tryggingu heldur fást með sektarákvæðum. Það er vonin um, að eitthvað verði aðhafst á næstu árum, sem vakir fyrir nefndinni, er hún leggur til, að þetta sjerleyfi sje veitt.

Að öðru leyti þarf jeg ekki að svara óákveðnum tilgátum hv. flm. brtt. (SvÓ) um fjelagið. Mörgu af því er áður svarað og ástæðulaust að endurtaka það nú.