27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Jón Baldvinsson:

Mjer sýnist nú alt mót á því, að frv. þetta fari út úr þessari háttv. deild. Jeg hefi ekki komið með brtt., enda bjóst jeg, satt að segja, ekki við því, að það mundi ganga svo greiðlega í gegnum deildina, og það þótt frv. sje þvert ofan í lög frá síðasta þingi.

En það er eitt, sem jeg sakna í frv. þessu, og það er það, að ekkert er tekið fram í því, að íslenskur vinnukraftur eigi að sitja fyrir, þegar að framkvæmdunum kemur. Virðist mjer þó full þörf á, að slíkt öryggi væri sett, því annars gæti svo farið, að fjelagið sæi sjer einhvern hag í því að nota að mestu útlendan vinnukraft til þess að framkvæma verkið. Hinsvegar veit jeg, að í sjerleyfislögunum er eitt af skilyrðunum í 9. gr. það, að Íslendingar sitji fyrir vinnu við slíkar framkvæmdir, að því leyti, sem þeir geta komið til greina.

Þess vegna vil jeg beina því til hæstv. atvrh., ef frv. þetta verður að lögum og fjelaginu veitt sjerleyfi, hvort hann mundi ekki vilja setja það sem skilyrði, er leyfið er veitt og til framkvæmda kemur, að Íslendingar sætu fyrir allri vinnu, nema að því er snertir sjerfræðinga, er ekki fást innanlands.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um málið, en get tekið undir með háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að mjer finst undarlegt að hafa enga tryggingu fyrir því í lögunum, að í slík fyrirtæki sje ráðist, ef leyfi er veitt. Það er búið að gera nóg að því að gabba. Alþingi í þessu efni, því ekki mun það þó ætlunin að eiga öll þessi sjerleyfi á „lager“. Vanalega hefir það farið svo um þessi sjerleyfi, að framkvæmdirnar hafa orðið þær, að stofnuð hafa verið hlutafjelög, sem aldrei hafa gert neinar framkvæmdir, en aðeins verið „spekúlerað“ með hlutabrjef þeirra. Því undarlegra þykir mjer, þegar þessa er gætt, að menn skuli hafa á móti því, að ríkissjóður hafi einhverja tryggingu í höndum fyrir því, að ekki sje sífelt verið að gabba hann með þessum sjerleyfisveitingum.