27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af síðustu ræðu hv. 2. þm. Reykv. skal jeg leiða athygli að því, að það getur ekki komið til mála að einskorða leyfið við, að eingöngu sje notað innlent verkafólk til umræddra framkvæmda. Kemur hjer fram sem oftar, að hv. þm. hugsar eingöngu um verkafólk, en gleymir, að það þarf einnig að hugsa um atvinnurekendur. Jeg vil taka tillit til hvorratveggja og tel, að það megi takast.

Jeg tel ekki ástæðu til að ætla, að fjelög þau, sem hjer ræðir um, muni ekki hyggja á framkvæmdir, og byggi jeg það á því, hve mikið fje þau þegar hafa lagt fram til rannsókna á þessu fyrirtæki.