07.05.1926
Efri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Fjhn. hefir haft til meðferðar þetta frv., eins og sjest á þskj. 500. Hefir hún yfir höfuð verið ásátt um að leggja til, að hv. deild veitti þetta sjerleyfi, þar eð auðsætt er, að ef þær verklegu framkvæmdir komast í kring, sem um ræðir í frv., væri það til ákaflega mikilla hagsbóta bæði hvað snertir aukinn iðnað í landinu og aukinn útflutning. Líka myndu þau hjeruð, sem nærri liggja þeim stöðum, þar sem ætlast er til, að virkjunin fari fram, njóta góðs af þessu fyrirtæki.

Það er öllum ljóst, að slíku verður ekki komið til, leiðar einungis með þeim fjárafla, sem hægt er að fá hjer á landi, heldur verður að seilast eftir útlendu fjármagni til þess.

Eins og jeg tók fram, vill nefndin veita leyfið. En komið gæti til mála, að sumir nefndarmenn gerðu till. um breytingar á vissum ákvæðum frv.; þó hefir sá hluti nefndarinnar ekki afráðið að gera svo við þessa umræðu, og yrði það því að vera við 3. umr., ef úr því yrði.

Jeg skal ekki að tilefnislausu gera þau ákvæði að umræðuefni við þessa umræðu, með því að mjer virðist ekki þörf á því. nema till. komi fram um að breyta þeim.