10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Við 2. umr. þessa máls ljet jeg þess getið fyrir hönd okkar þriggja nefndarmanna, að þótt við þá hjeldum ekki fram neinum brtt. við frv., þá gæti það komið til mála við þessa umr., og brtt. á þskj. 545 sýnir, að svo hefir orðið. Það var talsvert rætt í nefndinni um þessi ákvæði, sem brtt. lýtur að, sjerstaklega ákvæði 7. og 9. gr., og að því er ákvæði 7. gr. snertir, sem er tímabil það, sem leyfishafar hafa til framkvæmdar þessum mannvirkjum, þá voru allir nefndarmennirnir, að einum undanskildum, á því, að þetta tímabil væri of þröngt, að alls ekki væri þarft að hafa þennan tíma svona nauman. Það er svo mikið sem ætlast er til að vinna, að fyrst sjerleyfi er gefið á annað borð til virkjunar, þá er ekki rjett að hafa tímann til þess að koma virkjuninni í framkvæmd bersýnilega of stuttan. Þetta sá nefndin og þess vegna höfum við leyft okkur að koma fram með brtt. um, að í staðinn fyrir „til 7 ára“ komi: til 9 ára; m. ö. o., að sjerleyfishafi eigi að hafa lokið mannvirkinu innan 9 ára frá því að leyfisbrjefið er gefið út. Hinsvegar sáum við ekki ástæðu til þess að breyta ákvæðinu um, að sjerleyfishafar yrðu að hafa byrjað á mannvirkinu innan 4 ára. Við vildum ekki gera þeim of örðugt fyrir að nauðsynjalausu; að því miðar þessi brtt. Ákvæði 9. gr. er um tryggingu þá, sem sjerleyfishafar setji um endingu framkvæmdar á þessu mannvirki. Þessi trygging á að falla til ríkissjóðs, ef mannvirkinu verður ekki lokið á tilsettum tíma, eða ef einhverjar vanefndir verða. Það getur verið, að ýmsir líti svo á, að þessi trygging sje nauðsynleg í ýmsum tilfellum, en að hún sje hjer nauðsynleg, er meiri hl. nefndarinnar ekki viss um. Við álítum, að öðruvísi standi á með þetta sjerleyfi en mörg önnur, hvað snertir framlag til rannsókna á þessari virkjun, því að fjelagið, sem hjer á hlut að máli, hefir varið miklu fje til þessara rannsókna, og því virðist, að fjelaginu sje full alvara með framkvæmd virkjunarinnar.

Fjelagið á virkjunarrjett á þessum fossum, sem er meira virði en sjerleyfið. Er því ekki hægt að búast við því, að aðrir færari menn sæktu um sjerleyfi til að virkja þessa fossa, er hjer um fæðir, á þeim tíma, sem hjer er átt við. Sjer því meiri hl. ekki, að ríkissjóður geti tapað nokkru, þótt þetta sjerleyfi sje veitt og á virkjun byrjað, þótt hún kæmist ekki að fullu í framkvæmd innan hins ákveðna tíma. Sáum við því ekki rjett að setja þetta viðurlag.

Sá maður, sem stendur fyrir framkvæmd þessa mannvirkis, kom á fund nefndarinnar og skýrði frá fyrirætlun sinni. Áleit hann, að ef þessi krafa um tryggingu stæði í lögunum, gæti hún staðið í veginum fyrir því, að erlendir fjáraflamenn legðu fram fje í fyrirtækið. En fjelagið kemst ekki af án erlends fjármagns. Ef þetta tryggingarákvæði yrði skilið þannig, að íslenska þingið hefði frá upphafi haft ótrú á fyrirtækinu, en aðeins veitt sjerleyfið til þess að tryggja sjer 50 þús. kr. upp úr krafsinu, þá gæti það orðið örðugur þröskuldur fyrir framkvæmd mannvirkisins. Hefir því meiri hl. nefndarinnar lagt til, að 9. gr. verði feld burt.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira að sinni um þetta mál, fyr en þeir hv. þm., sem hafa á móti þessu, hafa fært fram ástæður sínar.