10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Ingvar Pálmason:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara af því að jeg bjóst við, að brtt. myndu koma fram. Það er nú orði áliðið þingtímans. og hefir því verið haldið að hv. Ed. í sambandi við annað mál, að ekki mætti koma fram með brtt., því að þá væri málinu stefnt í voða. Þetta mál er fyrir stuttu komið til þessarar deildar, og að fara að gera breytingar á frv. gæti orðið til þess, að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Mjer er þetta mál að vísu ekkert kappsmál, en vildi þó ekki setja fót fyrir það, og er því á móti öllum breytingum á frv.

En gagnvart þessum breytingum vil jeg segja það, sjerstaklega um fyrri brtt., sem er um þann tíma, sem framkvæmd mannvirkisins á að vera lokið á, að jeg er henni ekki mótfallinn. Og ef á að gera nokkra breytingu við frv., gæti jeg greitt þessari brtt. atkvæði. Annars greiði jeg ekki atkvæði með neinum breytingum á frv., því að þær gætu hindrað framgang þess.

Hvað það snertir að fella niður 50 þús. kr., sem viðkomandi setji sem tryggingu fyrir framkvæmd verksins, þá er jeg því algerlega mótfallinn. Því er haldið fram, að ef þetta ákvæði verður látið standa, geti það vakið tortrygni. En mjer þykir undarlegt, að ef fyrirtæki, sem kostar tugi miljóna að koma á fót, verður að greiða 50 þús. kr. tryggingargjald, þá verði ekki neitt úr neinu.

Eftir þeirri litlu þekkingu, sem jeg hefi um þessi mál í Noregi, veit jeg ekki betur en að viðkomendur verði altaf að setja tryggingu fyrir því, að verkið verði framkvæmt. Það má að vísu vel vera, að þegar við erum að veita svona sjerleyfi í fyrsta skifti, þá eigi að hafa kjörin svo aðgengileg, að það verði ekki til þess að hindra framkvæmd verksins.

En það er ekki óhugsandi, að Alþingi veiti fleirum en þessu fjelagi sjerleyfi, og væri þá gefið hjer fordæmi, sem erfitt yrði að breyta í framtíðinni, ef ekki væri sett nein trygging hjer í fyrstu. En þessi upphæð er svo lág, að jeg held ekki, að hún geti orðið fyrirtækinu að falli. Ef alt annað, sem fyrirtækið snertir, svo sem það hvað fyrirtækið gefur í aðra hönd o. fl., er í lagi, verður þessi upphæð aldrei framkvæmd þess til fyrirstöðu. Hinsvegar verður að fara varlega og gefa ekki fordæmi, sem gera myndi aðstöðu okkar erfiðari síðar undir svipuðum kringumstæðum. Fyrirtækið er stórt og krefst mikils höfuðstóls. Verður þá að setja einhverja tryggingu fyrir því, að það verði framkvæmt á tilsettum tíma. Mjer virðist, að það sje eðlilegt, að menn greini á um, hve tryggingarupphæðin skuli vera mikil, en hitt ætti ekki að vera álitamál, að tryggingu sje sjálfsagt að setja. Sem sagt, þetta getur altaf verið álitamál. Jeg vildi aðeins láta hv. deild vita afstöðu mína og gera grein fyrir atkv. mínu. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Hv. þdm. eru sjálfsagt búnir að ákveða atkvæði sitt. Það er tvent, sem hjer kemur til greina. Annarsvegar það, að breytingartill. þessar gætu orðið til þess, að frv. strandaði að þessu sinni, en hinsvegar væri gefið fordæmi, sem ef til vill gæti sett Alþingi í vanda síðar meir.