10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir það æðisljór skilningur á orðum mínum, sem háttv. 3. landsk. (JJ) fær út úr þeim, þegar hann telur mig með tilmælum mínum til deildarinnar um gætilega meðhöndlun fjárlaganna hafa látið í ljós, að þingið ætti aðeins að vera samþykkjandi þeirra eða ráðgefandi, eins og hv. þm. síðast orðaði það.

Þetta er fjarri öllum sannleika. Jeg gekk út frá því sem sjálfsögðu, að meiri hluti þingsins hefði vald til þess að ráða fjárlögunum ef hann gæti látið vilja sinn í ljós á þeim grundvelli, sem stjórnarskráin setur og þingsköp mæla fyrir. Þetta hjelt jeg að ekki þyrfti að taka fram, þegar líka þess er gætt, að það eina vald, sem stjórnin annars hefir gagnvart þinginu, sem er að rjúfa það, er beinlínis af henni tekið að því er snertir meðferð fjárlaganna. Þetta vita allir nema hv. 3. landsk.

Þar sem nú meðferð fjárlaganna er algerlega á valdi þingsins, þá vil jeg undirstrika það, að af því leiðir, að það má ekki líta svo á hlutverk sitt, að það eigi einhliða að koma fram með hækkunartillögur. Heldur á það að líta á málið frá báðum hliðum og sjá fyrir forsvaranlegri áætlun bæði tekna og gjalda.

Með þessum ummælum er jeg alls ekki að beina því til þingsins, að það eigi ekki að nota vald sitt, heldur er jeg að leggja áherslu á, að það beiti valdi sínu á dálítið víðtækari hátt en það gerði á síðasta þingi, því að þá kom það einhliða með útgjaldahækkanir.

Jeg hefi bent á áður, að fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir, er samið á öðrum grundvelli en frv. í fyrra, og leyfir því ekki jafneinhliða meðferð. Annars ætla jeg ekki að fara að ræða hina gömlu reglu fyrir skynsamlegri afgreiðslu fjárlaganna, að áætla tekjurnar varlega. Hv. 3. landsk. hafði það eftir mjer, að því aðeins væru fjárlögin vel úr garði gerð, að öll útgjöld væru áætluð sem hæst. Að jeg hafi sagt þetta, er vitanlega hin hreinasta fjarstæða. Jeg hefi bara haldið því fram, að það væri ekki nema til að svíkja sjálfan sig að áætla lögboðnar greiðslur lægri en þær í raun og veru væru.

Þó að stjórnin hafi áætlað tekjur og gjöld í fjárlagafrumvarpinu eins hátt og hún taldi, forsvaranlegt, er það hreinasti misskilningur hjá þessum háttv. þm., að þingið geti svo engu um ráðið, því að þingið hefir jafnt vald til að lækka sem hækka tekjur og gjöld ríkissjóðs. Það getur því gert alt, sem það vill, í þessu efni.

Þá gat þessi háttv. þm. þess, að þar sem stjórnin styddist við meiri hluta þingsins, þá myndi hún neyta þeirrar afstöðu sinnar til þess að halda fjárlögunum eins og hún vildi. Þetta nær vitanlega engri átt. Það mun fátítt, að nokkur einstök fjárveiting sje ágreiningsefni milli flokka. Það getur aðeins komið fyrir, en er mjög sjaldgæft. Háttv. 3. landsk. þarf því ekki að undirstrika vald þingsins að þessu leyti; jeg var búinn að því i fyrri ræðu minni.

Hitt er ekki nema eðlilegt, að menn vilji fá verklegar framkvæmdir eftir þá kyrstöðu, sem verið hefir á því sviði nú undanfarin ár. Þetta var stjórninni ljóst og í samræmi við það var frumvarpið útbúið og framlagt.

Þá sagði þessi hv. þm., að tekjur og gjöld ætti að áætla eftir bestu samvisku. Þetta er vitanlega rjett; tekjur og gjöld á að áætla eftir bestu samvisku, en eins og jeg hefi bent á áður, er ekki hægt að byggja áætlun, sem gerð er svona löngu fyrirfram, á svo mikilli vissu, að samviskusamlega gerð áætlun verði rjett áætlun. Jeg lít því svo á, að ekki sje hægt að halda fjárhag landsins í góðu lagi nema með gætilegri tekjuáætlun, svo gætilegri, að altaf verði dálítill afgangur fyrir ófyrirsjeðum útgjöldum. En því miður hefir ekki altaf reynst svo hjá okkur, því að allmörg ár má finna, sem LR sýnir tekjuhalla, en slíkt fylgir einkanlega erfiðu árferði atvinnuveganna, og nú megum við búast við hinni sömu hættu að því leyti og undanfarin kreppuár, því að horfur atvinnuveganna eru síst betri nú en þá.

En það teldi jeg hið mesta ólán, ef svo freklega yrði farið á stað nú að því er snertir verklegar framkvæmdir, að þingið neyddist til að stíga hið sama spor og það varð að gera undanfarin ár, að stöðva slíkar framkvæmdir að mestu leyti aftur. Mín skoðun er sú, að best fari á því, að hinar verklegu framkvæmdir gætu orðið meiri á erfiðu árunum en á góðu árunum.

Um einstakar fjárveitingar, sem háttv. 3. landsk. var að tala um, eins og t. d. til sendiherrans í Kaupmannahöfn og sendimannsins á Spáni, ætla jeg ekkert að segja við þessa umræðu. Það er nefnilega sinn hátturinn á hvorum, háttv. þm. Str. (TrÞ) í Nd. og háttv. 3. landsk. (JJ). Háttv. þm. Str. getur aldrei talað um nema eitt mál, sem sje gengismálið, en hv. 3. landsk. getur aldrei talað um eitt mál. Hann lætur sjer sjaldan nægja minna en að hlaupa um alla Norðurálfuna þegar hann tekur til máls.

Hver verði afdrif frumvarpsins um breytingu á vörutollslögunum, sem borið er fram af fjhn. neðri deildar, get jeg ekkert sagt um að svo stöddu. Eftir því, sem jeg hefi tekið eftir, hygg jeg það borið fram af nefndinni óskiftri, og í henni eiga sæti 7 menn úr öllum flokkum þingsins, nema jafnaðarmannaflokknum. Hlýtur það því að eiga von á töluvert miklum stuðningi í þinginu. En jeg get ekki neitað, að það sýnist eðlilegt að setja það í samband við afgreiðslu verðtollsfrumvarpsins, sem ennþá liggur fyrir þeirri nefnd. Meðan jeg veit ekki um afstöðu nefndarinnar til þess frumvarps, get jeg því ekki sagt um afstöðu mína til frv. um breytingu á vörutollslögunum, og því ekki svarað þeirri fyrirspurn háttv. 3. landsk.

Annars gladdi það mig, að þessi hv. þm. staðhæfði í ræðu sinni, að enginn þingmaður myndi vilja fjárlög með raunverulegum tekjuhalla. Vil jeg því endurtaka það álit mitt, að ekki megi miða tekjuvonina 1927 við tölur frá árinu 1925, og það sje í djarfasta lagi að miða hana við það, sem reyndist 1924.