12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. hefir orðið fyrir þeirri breytingu í hv. Ed., að í 7. gr. hefir verið sett „til 9 ára“ í staðinn fyrir „til 7 ára“. Sá tími, sem sjerleyfishafar hafa til að ljúka þessu mannvirki á, hefir verið lengdur um 2 ár. Þetta skiftir ekki miklu, því að aðalatriðið er, að á verkinu verði byrjað, og er sá frestur hinn sami og settur var hjer í deildinni.

Aðalbreytingin, sem hv. Ed. hefir gert, er að fella niður 9. gr. frv., sem sett var inn hjer í deildinni. Nú er sú breytingartill. borin fram aftur af hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg vil geta þess fyrir hönd meiri hl. fjhn., að hann óskar þess, að þessi brtt. verði feld, svo að málið verði ekki hrakið á milli deildanna þess vegna, því svo langt er liðið á þingtímann, að óvíst yrði þá um örlög þess.