25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1927

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þakka hæstv. forseta fyrir þá velvild að leyfa mjer að komast undir þann „paragraf“ að fá að bera af mjer sakir, enda þótt jeg hafi engar sakir af mjer að bera. En þar sem jeg tek hjer til máls einn úr flokki, þá vonast jeg til, að menn hneykslist ekki á því, þó að jeg noti þetta leyfi. En jeg skal ekki misnota það; mun aðeins drepa örlítið á það, sem hæstv. fjrh (JÞ) sagði síðast. Þó verð jeg að segja það honum til hróss, að þar sem jeg var dauður og gat ekki búist við að fá að tala aftur, þá stilti hann mjög í hóf. Hann vjek að skoðunum okkar á landbúnaðinum, og er jeg honum þar mjög ósamþykkur. En jeg get tekið undir það, að landbúnaðurinn er góð stoð við að framkvæma örðug verkefni. En hví er verið að leggja út í örðug verkefni, ef til einskis er að vinna? Og hjer er til einskis að vinna. Það er alveg misskilið verkefni að vera að lengja alinmál peninganna um einn þumlung.

Jeg vil svo aðeins leggja áherslu á, að allur fyrri hluti ræðu hæstv. fjrh. var ekki svar til mín, heldur svar til læriföður hans, Cassels. En gagnstætt því, sem var í bókinni „Lággengi“, þá gefur hann hjer Cassel hreina og beina vantraustsyfirlýsingu, og falla öll orð hæstv. fjrh. á hann. En jeg læt þá um að eigast við. Vil aðeins minna á hina fornu setningu: Ekki er lærisveinninn yfir meistaranum.

Hæstv. fjrh. beindi því til mín, að jeg væri ætíð með þennan barlóm vegna atvinnuveganna, og stæði jeg þar einn uppi. En það stóð nú svo einkennilega á, að einmitt þegar hann var að mæla þessi orð, var jeg að undirskrifa meiri hl. álit gengisnefndar, og felst í því hin sama skoðun og jeg hefi hjer haldið fram.