22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get að mestu leyti skírskotað til greinargerðar þessa frv. Einnig hafa tvisvar sinnum áður verið borin fram hjer á þingi frv. ekki ólík þessu, og get jeg skírskotað til umræðna, sem þá urðu við framsögu um málið.

Eins og hv. þdm. mun vera kunnugt um, hefir verið stunduð sala á erlendum happdrættismiðum í allstórum stíl hjer á landi. Síðastliðið haust voru bornar auglýsingar hjer út um bæinn í þeim tilgangi að hvetja menn til að kaupa erlenda happdrættismiða, og einnig í sveitunum hefir mikið verið gert til að greiða fyrir sölu miðanna.

Jeg skal viðurkenna, að jeg er ekki hrifinn af sölu happdrættismiða yfirleitt. Mundi jeg gjarnan kjósa að vera algerlega laus við hana. Hinsvegar hefir sala erlendra happdrættismiða verið rekin hjer um það langt skeið, að jeg býst ekki við, að hún yrði lögð niður. Þá er að athuga, á hvern hátt salan verði þjóðinni hagkvæmust og sem mestur vinningur fyrir hana.

Sumir vilja ef til vill halda því fram, að löggjöf nægi til að koma í veg fyrir sölu erlendra happdrættismiða. Söluna megi banna með lögum. Þesskonar lög er auðvitað hægt að setja og hægt að gæta þeirra að því leyti, sem í löggæslumanna valdi stendur. En þrátt fyrir löggjöfina yrði hægt að reka söluna hjer í jafnstórum stíl og áður. Salan mundi halda áfram póstleiðina. Ef miðarnir eru sendir í pósti og frímerktir til viðtakanda sem prívatbrjef, er ekki heimilt að svipast eftir, hvað í brjefinu er.

Þar sem því ekki er hægt að koma í veg fyrir sölu erlendu happdrættismiðanna, virðist liggja nokkru nær að reyna að koma á innlendu happdrætti. Það mundi koma í veg fyrir sölu erlendu miðanna, og á þann hátt fengi ríkissjóður álitlegan tekjuauka, en af erlendu sölunni fær hann vitanlega engar tekjur. Þeir, sem kaupa erlendu miðana, fá og sjaldan vinning, en komi það fyrir, er það aðeins lítið brot af því fje, sem fer út úr landinu til seðlakaupanna.

Ef vel gengur með sölu innlendu happdrættismiðanna, ættu beinar tekjur landsins af happdrættinu að geta orðið um 800 þús. kr. á ári. Þó að menn sjeu nú drjúgir yfir hag landsins, þá skortir samt fje til ýmissa framkvæmda, enda virðist miklu heilbrigðara að leyfa sölu innlendra happdrættismiða en að láta útlendinga sópa greipar um þetta fje.

Að endingu vil jeg gera það að till. minni, að málinu verði vísað til fjhn.