14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er misskilningur hjá hv. flm. (JörB), að aðrar þjóðir hafi brotið lög á okkur með sölu lotteríseðla. Hún hefir verið frjáls hjer til þessa, og er það enn. Hitt eru aðeins spádómar, að það verði gert, en jeg hygg, að ekki verði sagt með sanni um neitt happdrætti í nágrannalöndum okkar, að því sje ætlað að brjóta á okkur lög, þótt þau kæmu. Stærð þeirra er ákveðin fyrirfram með það fyrir augum, að þau sjeu hæfileg fyrir innlend kaup. Þó skal jeg játa, að í Danmörku starfar eitt happdrætti, sem ætlað er að selja til annara landa. enda hefir það orðið ákaflega illræmt. Þetta lotterí er misnotað til að selja seðla til landa, þar sem sala er bönnuð, og er altaf eilíf rekistefna út af því. Samskonar rekistefna yrði okkur áreiðanlega til hinna mestu óþæginda. Það kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. (HStef), að þetta væri ekki nýr skattur, þar sem við greiddum þegar álitlega upphæð til erlendra happdrætta, og nefndi hann í því sambandi nokkrar fjárhæðir, sem færu út úr landinu fyrir happdrættismiða. Þetta er að miklu leyti bygt á misskilningi. Það, sem hv. þm. vísaði í, er sala, sem hjer hefir verið leyfð á sænskum ríkisskuldabrjefum. Það er fyrir þessi happdrættisskuldabrjef, sem borgað hefir verið 60 þús. kr. frá einum kaupstað, eins og háttv. frsm. meiri hlutans nefndi. En þessi verslun er ekki happdrætti nema að nokkru leyti. Því að mjer skilst, að trygð sje greiðsla á höfuðstólnum — ríkisskuldabrjefunum, — en aðeins happdrætti um, vextina, eða þann hluta þeirra, sem ekki fer í kostnað. Ef því á að meta, hve mikið fje fer úr landinu fyrir þetta „happdrætti“, ber aðeins að líta á vaxtaupphæðina. Og þó kemur vitanlega mikið af vöxtunum inn aftur í vinningunum. Það er því í raun rjettri vaxtaupphæðin, sem greidd er, sem sýnir umsetninguna. Jeg vil ekki segja, að jeg sje svo sjerstaklega kunnugur þessum málum, en jeg verð að segja, að jeg veit ekki um marga hjer á landi, sem spila í erlendum happdrættum. Það er rjett einn og einn, sem kemur frá öðrum löndum og heldur því áfram. Held jeg því, að það sje ekki í neinni líkingu við þann skatt, sem hjer á að leggja á þjóðina með þessu, happdrætti.