19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Björn Líndal:

Eins og sjá má á nál. fjhn. á þskj. 144 og brtt. minni á þskj. 340, hefi jeg talið fara betur á því, að einkaleyfið væri ekki veitt á nafn neinna einstakra manna, heldur fjelagi, sem stofnað yrði í þessum tilgangi. Jeg vil taka það fram til þess að firra öllum misskilningi, að jeg ber alls ekki vantraust til þeirra heiðursmanna. er einkaleyfið eiga að fá samkv. frv. Þvert á móti. Jeg álít þá mjög góða og áreiðanlega menn. En það liggur ekki fyrir nein trygging fyrir því, að þessir menn dragi sig ekki til baka þegar til á að taka. — Allir erum við dauðlegir, og dauðinn getur sótt þessa menn, annan eða báða, áður en varir, og ef annar þeirra deyr áður en einkaleyfið er fengið, verður hinum naumast veitt einkaleyfi samkv. frv. Þegar þetta er athugað, álít jeg rjett að binda leyfið ekki við nafn. Þar fyrir tel jeg ekki líklegra, að aðrir fái leyfið en einmitt þessir menn, og jeg tel það sjálfsagt, að þeir gangi fyrir öllum öðrum, að öllu jöfnu. En jeg skil frv. á þann veg, að stjórnin megi leita fyrir sjer, hvort ekki fáist betri tilboð en þetta. Vona jeg, að hv. þdm. geti fallist á brtt. mína.