19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir undarlegt að heyra það fram borið af hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og fleiri háttv. þm., að ástæðan til, að þeir fylgi þessu frv., sje sú, hve mikið fje fari út úr landinu fyrir erlend happdrætti. Þessir hv. þm. vita þó, að nú á þessu þingi hafa verið samþykt lög, sem banna hjer sölu á erlendum happdrættismiðum. Mjer finst því þessi ummæli hv. þm. sýna nokkuð litla trú á því, að bannlagasetning geti gert nokkurt gagn. Þótt jeg sje yfirleitt enginn bannvinur, hygg jeg það nokkuð langt gengið að álíta hana altaf þýðingarlausa. Úr því að hið háa Alþingi vildi fara þessa leið til að útrýma erlendum happdrættum, þá finst mjer það fulllangt gengið að vantreysta svo ógurlega þessum ráðstöfunum, að vilja jafndýra lækningu og að magna farganið svo innanlands, að hið erlenda drukni alveg. Það ætti að minsta kosti að vera óhætt að bíða með þetta uns hin lögin hafa sýnt, hvað þau geta.

Hv. þm. Ak. (BL) vildi taka nöfnin burt úr frv., en gerði þó ráð fyrir, að þessir menn væru látnir ganga fyrir öðrum. Við það var auðvitað ekkert að athuga. En svo kom hv. frsm. meiri hluta (HStef) og sagði að frv. bæri að skoða sem samning við leyfishafa. Þessu vil jeg algerlega mótmæla. Í þessu frv. er aðeins gefin heimild til stjórnarinnar til að veita þessum mönnum einkaleyfið. Með þessu formi er ekki hægt að skylda stjórnina og því síður að binda hana svo freklega, að frv. sjálft geti talist samningur.

Annars er líka eitt atriði, sem jeg held að sje nokkuð sjerstakt fyrir þessi heimildarlög. Það er, að í þau vantar ákvæði, sem er í flestum öðrum slíkum lögum, sem sje tímatakmarkið, hvenær heimildin falli úr gildi fyrir stjórnina. (MJ: 1. mars 1927, tekið fram í e.-lið). Það er dálítið annað. Þá hafa þessir menn mist sín forgangsrjettindi. En verði brtt. hv. þm. Ak. (BL) samþykt, og raunar hvort sem er er opin leið að þinga þá við aðra um að taka að sjer happdrættið. Það er meira að segja skýrt tekið fram í e.-liðnum, ef einkaleyfishafar fyrirgeri rjetti sínum, þá sje ráðuneytinu heimilt að selja einkaleyfið öðrum í hendur. En það er engin takmörkun á þeim tíma, sem heimild ríkisstjórnarinnar gildir. Þetta finst mjer óvenjulegt, svo og það, að frsm. meiri hl. skyldi ekki geta verið samþykkur brtt. hv. þm. V.-Sk., um að fella 2. málsgr. 2. gr. niður. Sú málsgr. virðist alveg óþörf og fara í bága við ákvæði, sem sett var inn í önnur lög, sem samþykt hafa verið á þessu sama þingi.