11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Hv. 3. landsk. (JJ) áleit, málið loðið og lítilsvirði. Það er rjett, að þetta er ekkert stórmál, en það er ekki loðið, heldur er það skýrt.

Hv. þm. (JJ) þótti lítið mark takandi á Winter. En hjer er ekkert í hættunni. Ef menn eru hræddir, þá hefir stjórnin það í sínu valdi að setja í samninginn ákvæði um það, að fjelagið megi ekki selja seðla í þeim löndum, þar sem bannað er að selja útlenda happdrættisseðla. Og með því er girt fyrir þessa hræðslu. Og ef þinn og stjórn heldur að hætta geti stafað af þessu, má setja það í samninginn, að fjelagið missi rjett sinn, ef út af þessu boði er brugðið.

Jeg leiði hjá mjer að tala um spilafíknina.

Að þetta sje skömm fyrir landið, eða geti orðið — jú, ef landið styður vísvitandi að ólöglegri. sölu, — annars ekki.

Hv. 1. landsk. (SE) talaði um Koloniallotteríið og að það hefði selt óleyfilega, eða að kvartað hefði verið um sölu þess. En hvaða samning hefir það við stjórnina? Það getur verið svo illa um hann búið, að fjelagið geti hagað sjer eins og það vill.

Þá mintist háttv. 1. landsk. á það, að ekki væri að vita, nema Íslendingar fengju of lítið af gróðanum. Eins og stendur í nál. meiri hl. fjhn., er ekki hægt að segja neitt um það með vissu, hvað gróðinn verður mikill. Það kemur undir sölunni. En við fáum aldrei minna en 100 þús. kr. á. ári, og það enda þótt hlutafjelagið tapi. Það er komið undir dugnaði þeirra, er selja, hvort nokkur arður verður á fyrirtækinu. Og hagsmunir fjelagsins eru enn ver trygðir þess vegna heldur en hagsmunir ríkissjóðs.

Það er vitanlega rjett hjá hv. þm. (SE), að þetta er „spekulation“, gerð í því skyni að græða. Það leggur enginn út í slík fyrirtæki nema hann hafi von um að græða á þeim. En þessi rannsókn, er hv. þm. (SE) talaði um, er ómöguleg.

Þá hefir verið talað um, að varhugavert sje að blanda nafni landsins inn í þetta. En það á ekki við, nema það sje landið sjálft, sem gefur út miðana, en hjer er það bara „privat“-fyrirtæki. (JJ: En íslenska stjórnin hefir veitt einkaleyfi). Já, það er eins og gerist í öðrum löndum.

Vegna þess, að þetta er mikið áhættufyrirtæki, vil jeg ekki, að ríkissjóður taki það að sjer. Markaður er þröngur hjer innanlands, og erlendis getur stjórnin ekki selt miða, en það geta aðrir, og undir því er alt komið.

Þetta er ekkert kappsmál fyrir okkur, en við viljum ekki slá hendinni á móti vissum tekjum.