14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Sigurður Eggerz:

Jeg get yfirleitt vísað til þess, sem jeg hefi sagt við fyrri umræður þessa mál, en jeg vildi þó áður en endanleg atkvæðagreiðsla fer fram lýsa yfir því, að jeg er hræddur við að láta þetta frv. fara gegnum þingið. Jeg skal ekki hafa mörg orð um þetta. Aðeins skal jeg nefna það, að jeg er hræddur um, að nafni Íslands geti orðið blandað inn í þetta við væntanlega útbreiðslu seðlanna erlendis. Jeg veit til þess, að óánægja hefir orðið í Danmörku út af Kolonial-lotteríinu, og er þó fullyrt, að þeir, sem lotteríið reka, hafi enga samninga brotið. Það gæti verið óþægilegt fyrir okkar unga fullvalda ríki, ef því væri blandað inn í þetta mál. Jeg er ekki fús á að draga einstaka menn inn í umræður, en jeg verð að segja, að sá maður, sem sjest hjer í baksýn, Philipsen, er ekki þektur fjármálamaður, hvorki í Danmörku nje á Íslandi. Í þessu nafni er engin trygging.

Jeg verð að líta svo á, að þessi nýja leið, sem hjer er farin, jafnframt því að banna sölu útlendra happdrættismiða hjer, snúi allmikið að kjósendum þessa lands. Og þar sem kosningar eiga að fara fram eftir eitt ár, sje jeg ekki, að svo brýn nauðsyn sje á að hrinda þessu máli af stað, að það mætti ekki bíða þar til raddir heyrðust um vilja þjóðarinnar. Það getur vel hugsast, að almenningsdómurinn sje sá, að ekki sje nein ástæða til að fara að æsa upp spilafýsn í mönnum, og jeg er viss um, að dómur þjóðarinnar yrði á þá leið. Jeg sje ekki neina ástæðu fyrir hið háa Alþingi til þess að hraða þessu máli, sem er svo illa undirbúið, að það er ekki einu sinni gerð nein tilraun til að sýna, hvort þeim mönnum, sem leyfið eiga að fá, sje ekki ætlaður alt of gífurlegur ágóði.

Jeg er viss um, að þótt þetta frv. verði samþykt, bætir það ekki úr þeim sorglega litla árangri, sem virðist ætla að verða af þessu þingi.

Jeg hefi gert grein fyrir áliti mínu á þessu máli. Ekki veldur sá, er varir.