14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg bjóst ekki við, að hv. 1. landsk. (SE) færi að endurtaka nú alt, sem hann sagði um þetta mál við 2. umr. og fjekk fullnægjandi svör við þá. Hann talaði um, að nafni Íslands gæti orðið blandað óþægilega inn í þetta mál. Jeg tók fram þá, að það væri auðgert fyrir stjórnina að fyrirbyggja þetta með því að setja það ákvæði, að svifta mætti lotterístjórnina rjettindum sínum, ef hún seldi seðla í þau lönd, sem bönnuð er sala í. Það má vel vera, að Koloniallotteríið hafi óorð á sjer, en það hlýtur þá að vera vegna þess, að samningar þess sjeu eitthvað götóttir. Það er annars ekkert nýmæli, að slíkt leyfi sem þetta sje veitt. Í öllum löndum eru rekin lotterí. Um þennan mann í baksýn, þennan Philipsen, er mjer ekkert kunnugt. Jeg veit aðeins um einn mann, sem leitað hefir verið til. Það er hæstarjettarmálaflutningsmaður, og í Danmörku fá ekki þann starfa nema hæfustu menn. Þegar við slíkan mann er að eiga, þýðir ekkert að vera að tala um þennan Philipsen, sem hv. 1. landsk. veit ekkert um, hvort kemur nokkuð nærri þessu máli.

Hv. þm. (SE) mintist á nýjar kosningar. Jeg skil ekki, að hjer sje um svo stórt mál að ræða, að tala þurfi um nýjar kosningar í sambandi við það. Stjórnin gæti hæglega ákveðið að selja ekki nema ¼ seðla og svo má minka spilafýsnina með því að hafa vinningana jafna, lága og marga, en engar stórar upphæðir, því að það eru þær, sem vekja spilafýsnina. Fólk yfirleitt spilar einungis að gamni sínu.

Að málið sje illa undirbúið, er lítil ástæða til að segja. Frv. er skýrt og ákveðið og stjórnin veit, hvað hún á að gera, og auk þess hefir hún mikið svigrúm utan frv.

Um gróðann er það að segja, að við 2. umr. tók jeg það fram, að jeg gæti ekki sagt neitt ákveðið um hann. Seljist lítið, er gróðinn enginn fyrir hluthafana, en 100 þús. kr. fyrir ríkissjóð. Seljist mikið, er ávinningur fyrir báða parta, hluthafa og ríkissjóð. Seljist allir seðlarnir, fær fjelagið vitanlega allmikinn gróða, sem það þá hefir unnið fyrir, eins og sjerhvert það fyrirtæki, sem leggur fje í hættu og er stjórnað svo vel, að það fær eitthvað í aðra hönd.