14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Hv. 4. landsk. (IHB) talaði um það, að á sama þingi og bannað hafi verið að selja erlend happdrætti vilji menn, að farið sje að stofna hjer til innlends happdrættis. Þótti hv. þm. hið mesta ósamræmi í þessu. En sá er munur á þessu tvennu, að annað varnar mönnum að draga peninga út úr landinu, en hitt dregur þá inn í það. Hv. þm. sagði, að hægra yrði um vik að losna við aura úr buddunni, ef þessi lög yrðu samþykt. En jeg held, að hvorki hv. 4. landsk. nje jeg geti passað budduna fyrir fólk, og sje best að láta allar tilraunir til þess ógerðar. Það var óþarfi fyrir hv. þm. að fara nú að lýsa afstöðunni „úr sínum bæjardyrum“, því að það var hann búinn að gera við 2. umr. Þá talaði sami hv. þm. um það, að vel gæti verið, að hæstv. landsstjórn mishepnuðust samningarnir við þá, sem tækju að sjer happdrættið. En jeg held, að ekki sje hætt við því, sakir þess, að slíkir samningar eru afareinfaldir og auðvelt að tryggja, að þeir verði ekki misnotaðir.

Hv. 3. landsk. (JJ) er óþarfi að svara miklu. Hann vill gera alt að flokkapólitík, til þess að geta auglýst í Tímanum, að hann og hans liðar hafi viljað vernda landið fyrir þessu ógurlega skaðræði. — Jeg rengi alls ekki, að hv. þm. hafi talað um þetta mál við einhvern erlendan ræðismann, og hann hafi sagt, að happdrættin væru óþverri. En mjer finst það bara sanna ósköp lítið. Annars ætla jeg ekki að fara í neinar kappræður um þetta mál og get ekki skilið, hvernig hv. l. landsk. (SE) og aðrir geta gert það að kappsmáli. Mjer er það ekkert kappsmál, en hefi aðeins sagt, það af skyldu, sem jeg hefi fram tekið um þetta, af því að jeg var kjörinn frsm. meiri hl. fjhn. — Eins og jeg tók fram, er mjer hjartanlega sama, hvað hv. deild gerir við þetta frv., og hv. 3. landsk. og aðrir mega gera úr því eins mikla pólitíska kosningabeitu og þeir vilja.