14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Sigurður Eggerz:

Hv. frsm. meiri hl. (BK) sagði í ræðu sinni, að alt, sem jeg benti á, hafi verið sagt áður. Jeg veit það vel og dreg engar dulur á það, en það hefir ekki verið sagt nógu oft ennþá, enda segir íslenskt spakmæli: aldrei er góð vísa of oft kveðin. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það mætti búa svo um þessa samninga, að sala miðanna yrði ekki misnotuð. En sannleikurinn er sá, að það má heita nær ómögulegt að búa svo um hnútana, að ekki sje hætta á misnotkun, því að þeir, sem við taka, hafa ákaflega ríka löngun til að koma seðlunum út, og hafa því allar klær úti til að komast kringum samningana.

Jeg verð enn að láta í ljós það, sem jeg hefi sagt áður um Kolonial-Klasselotteríið danska, að það hefir orðið Dönum til hinna mestu óþæginda. Það hefir vakið bæði óánægju og umtal í Frakklandi, að miðar þess hafa verið seldir þar. En þeir, sem fyrir lotteríinu standa, segjast halda alla samninga og vera í fullu samræmi við þá. En það er þessi ákafa og skiljanlega „reklame“-löngun sem kemur því út á hálan ís. — Hv. frsm. (BK) hjelt því fram, að draga mætti úr því, að almenningur spilaði í happdrættinu með því að hafa miðana nægilega dýra. En jeg held, að hv. þm. hafi ekki gefið því gaum, hve afskapleg spilafíknin getur orðið. Ef hann hefði lesið bók eftir Dostojewsky, sem heitir „Spilarinn“, væri hann því ekki fylgjandi að innleiða þennan ósóma hjerna. Í þeirri bók er þessari ógeðslegu ástríðu lýst svo átakanlega, að hver maður hlýtur að fá viðbjóð á henni. Það er því ekki góð gjöf frá Alþingi síðasta daginn að rjetta þennan ósóma að þjóðinni. En ekki verður því um kent, að það hafi ekki verið varað við.

Við hæstv. fjrh. vil jeg segja, að ef hið háa Alþingi samþykkir þetta frv., verður ilt að standa á móti ásókninni. Þetta mál byrjaði með litlu fylgi hjer í þinginu, en það hefir aukist eins og spilafýsnin magnast í mannssálinni. Menn hjeldu, að það væri steindautt eftir að það hafði fyrst verið fram borið, en nú eru allar líkur á, að það muni ganga alvarlega aftur.

Jeg iðrast ekki þeirra ummæla minna, að þetta mál mætti bíða fram yfir kosningar. Jeg segi ekki, að kosið verði um það eitt, en fái þjóðin að segja sitt álit um það, er það áreiðanlega úr sögunni fyrst um sinn.