14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Ingibjörg H. Bjarnason:

Háttv. frsm. meiri hl. (BK) tók það fram, að erfitt væri að banna einstaklingum þjóðfjelagsins að verja fje sínu eftir eigin höfði. Það held jeg líka. Því er jeg á móti öllum hömlum á persónulegu frelsi manna. En þegar búið er að banna hjer erlend happdrætti, held jeg því fram, að engin ástæða sje til að opna dyrnar fyrir jafnvafasömu gróðafyrirtæki og hjer er talað um. Jeg segi vafasömu, því að það er vafasamt um fleira en fjárhagshliðina. Þótt það væri rekið af ríkinu, gæti jeg ekki fylgt því að afla ríkissjóði tekna á þann hátt. Fyrir mjer er þetta ekki flokksmál, heldur skynsemismál, og læt jeg leiðast af því einu, sem hún segir mjer. — Hv. frsm. (BK) talaði um, að það væri ákaflega einfalt mál að ganga frá samningum við happdrættisfjelagið. Jeg hefi nú ekki átt um þetta að fjalla í neinni nefnd og ekki haft rjerstakt tækifæri til að kynna mjer það, en jeg held, að það sje ekki vandalaust eins og það horfir við frá sumum. — Er það von mín, að þetta frv. nái ekki fram að ganga.