27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1927

Jónas Jónsson:

Jeg á hjer fáeinar brtt., en áður en jeg kem að þeim, vil jeg víkja að einstökum till. fjvn.

Hv. nefnd hefir lagt til að fella styrk til Haralds sonar Sigurðar læknis frá Patreksfirði. Hann er bæði gamall og nýr berklaveikisjúklingur, fjekk ungur sýkina, kom til Vífilsstaða, mun hafa komist þar í ónáð, og það, er ástæðan til þess, að hann kemst þar ekki að aftur. En almenningur mun álíta, að umtal sjúklinga hafi gert vistina þar betri, og því er ekki rjett að láta hann gjalda þessa. Jeg þekki þess dæmi, að maður úr Árnessýslu, sem ekki var annað sýnna en væri kominn að dauða á hælinu, er nú orðinn gallhraustur maður og vinnur fyrir sjer og fjölskyldu sinni. En hann var meira en ár sjer til heilsubótar í Noregi. Það er því stór ábyrgðarhluti að synja þessum manni um batavon.

Út af sparnaði við símalagningar vil jeg geta þess, að þar er einmitt tekin út sú fjárhæð, er sjerstakar skýringar fylgdu um í hv. Nd., þ. e. Loðmundarfjarðarsíminn. Þetta er þjettbýli við sjó, þar sem ekki er kominn sími, en landssímastjóri hefir mælt með, að hann yrði lagður þangað.

Jeg þakka hv. nefnd fyrir till. hennar um ferðastyrk handa presti til að ferðast um. Þetta vakti mótstöðu í hv. Nd., en jeg hygg, að hjer sje byrjað á góðri venju, bæði um presta og aðra andans menn, og að þess sje þörf úti um land. T. d. hefir sýslufundur Skaftafellssýslu beðið einn af prófessorum háskólans að koma í vor og halda þar fyrirlestur í hverjum hreppi.

En jeg get ekki sagt hið sama um utanfararstyrk Helga Hjörvars. Þessi maður er mjer kunnur síðan hann var í kennaraskólanum og jeg man eftir því, að við burtfararpróf í skólanum dáðist Þórhallur biskup Bjarnarson að kennarahæfileikum hans. Síðan hefir hann verið einn af bestu kennurum barnaskólans; finst mjer því sjálfsagt, eins og Nd. vildi, að veita honum fje til utanfarar til þess að sækja nýja strauma. Svo er eitt enn. Hann hefir í ár gefið út skáldsögur eftir sig, er hafa fengið almenningslof. Og þess vegna er hann líka verður viðurkenningar. Og ástæðulaust var það að setja í hann hnútur í þskj., bæði sem mann og kennara.

Hv. nefnd vill fella niður styrk til að rita menningarsögu, en jeg vona, að hún haldi ekki fast við það. Eins og menn vita, þá er fje þetta ekki ætlað neinum sjerstökum manni, heldur á að borga nokkrum sagnaþulum laun fyrir að skrifa upp þann fróðleik, er þeim geyma í sjer. Ef þetta væri dregið í svo sem 20 ár, kæmi það ekki að hálfum notum við það, sem nú er, því að yngra fólkið á ekki í sjer helming af þeim þjóðlega fróðleik, sem gamla fólkið geymir. Liður þessi er því gagnlegur nú, en óþarfur er lengra líður.

Um styrk listamanna er ekki nema gott að segja um till. hv. nefndar. Þó er þar einn liður, sem stórsynd væri að samþykkja eins og nefndin leggur til. Það er um kaup á listaverkum. Við eigum nú 10–12 málara, sem hafa brotist áfram af dugnaði sínum og sumir með styrk. En landið er svo lítið, að þeirra bíður hungurdauði að námi loknu, eða þeir verða þá að hverfa frá list sinni að öðru starfi. Það er aðeins einn málari á Íslandi, sem getur selt svo mikið, að hann getur nokkurnveginn lifað af því. Ef landið kaupir ekki á hverju ári nokkuð af listaverkum, þá er engin von til þess, að list geti dafnað hjer. En fyrir það fje, sem til þessa er varið, fáum við verðmæti, sem geta geymst öldum saman og ganga aldrei úr sjer. Það er því fjarstæða að færa þessa upphæð niður um helming; væri sýnu nær að auðga landið að listaverkum. Jeg kem ekki fram með neina brtt. um þetta, en vil aðeins víta þá skoðun, er þarna kemur fram. Hjer er ekki um neinar gjafir að ræða, heldur kaup.

Hv. nefnd hefir lagt, til að fella ritstyrk dr. Guðmundar Finnbogasonar. Þetta held jeg, að ekki sje rjett, hjá henni. Það er öllum kunnugt hjer í hv. deild, að dr. Guðmundur Finnbogason hefir lengi verið með vinsælli rithöfundum þjóðarinnar, enda með gáfuðustu mentamönnum landsins. Það mundi því í rauninni ekki skapa neitt fordæmi gagnvart öðrum, þótt honum væri sýndur sá sómi að styðja hann til þess að ljúka því verki, er hann vill byrja á. Dr. Guðmundur Finnbogason hefir orðið við því trausti, sem Alþingi sýndi honum, þá er hann tók við safninu, er það var í niðurníðslu og hafði vont orð á sjer. Hann hefir komið á það góðu orði og hefir tekist að fá safnið í þá röð og reglu, er því sómir, og kunnugir dást að því, hve mikla vinnu dr. G. F. hefir lagt í það. Og maður, sem tekur að sjer þetta vandasama verk og rækir það svo vel, ætti skilið að vera settur yfir meira.

Hann hefir hugsað sjer að skrifa mikið og merkilegt rit um sálarlíf Íslendinga samhliða bókavarðarstarfinu. En hann skoðar það sína aðalköllun að vera rithöfundur. Jeg hygg því, að engin hætta sje að fella þessa brtt. hv. fjvn.

Þá vill nefndin fella niður styrkinn til Guðmundar Jónssonar frá Mosdal. Það er líklega af ókunnugleika, því að enginn efi er á því, að hann er einhver besti maður, sem landið á völ á í þessu efni. Maðurinn mun gera mikið gagn með því að starfa á Vesturlandi að trjeskurði og heimaiðnaði.

Jeg er þakklátur fjvn. fyrir að hafa tekið í 18. gr. þá miklu skáldkonu Kristínu Sigfúsdóttur. Hún vaknaði við það í okkar litla landi að verða fræg, er hún hafði gefið út dálítinn sjónleik — og er það afarsjaldgæft. Hygg jeg, að Alþingi sje hjer að gera það, sem því verður sómi að í framtíðinni.

Þá er 1. brtt. mín, um eftirgjöf á eftirstöðvum á viðlagasjóðsláni Dalasýslu. Jeg hefi tekið þetta upp vegna þess, að hv. þm. Dal. (BJ) er veikur, en jeg ætla ekki að mæla sjerstaklega með þeirri brtt. nú, vegna þess að fjvn. hefir beðið mig að taka hana aftur til næstu umr., og býst jeg við, að fjvn. taki hana þá upp.

Þá er tillaga um að kaupa marmaramyndina „Hafmey“ eftir Ásmund Sveinsson. Þessi maður er ættaður úr Dalasýslu, lærði hjá Ríkarði Jónssyni og varð þegar þektur fyrir trjeskurð. Síðan fór hann utan og er eini Íslendingurinn, sem gengið hefir gegnum listaskólann í Stokkhólmi. Þar hefir hann getið sjer mikinn orðstír. Og eitt af hans góðu verkum, er aflað hafa honum álits þar, er gosbrunnur úr marmara, er hann nefnir „Hafmey“. Einn prófessor þar hefir sent Alþingi álit sitt og ráðlagt því að kaupa myndina af honum. Ef Ásmundur fengi fjeð, mundi hann verja því til Rómaferðar.

Jeg hefi ástæðu til þess að ætla, að hann verði einkar efnilegur listamaður.

Hann hefir brotist áfram í dýrasta landi Norðurlanda. Síðan hann var útlærður hefir hann fengið starf við það að skreyta merkilegar byggingar í Svíþjóð. Þessi prófessor, sem gaf honum meðmælin, sagði við Íslending í sumar, að hann hefði ráðlagt Ásmundi að gerast sænskur borgari. En hann vildi ekki selja sinn íslenska frumburðarrjett. Ætti landið að minnast þess, að hann er ekki eingöngu sonur, heldur er ættjörðin móðir. Og jeg tel sjálfsagt, að listaverkið verði haft á einhverjum opinberum stað, t. d. Alþingishúsgarðinum.

Þá á jeg hjer brtt. ásamt hv. 1. þm. G.K. (BK) um utanfararstyrk til Brynjólfs Þórðarsonar. Það er líkt um hann að segja og Ásmund, að hann er hinn efnilegasti listamaður. Þórarinn heitinn Þorláksson tók hann að sjer og kendi honum að mála af umhyggju fyrir listinni, að því er sjeð verður, því að ekki átti þessi unglingur neitt fje, sem hann gæti goldið kensluna með. Þessi ungi listamaður hefir nú starfað hjer í bænum í 10 ár, og jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að í flestum húsum, þar sem málverk eru keypt, eru til myndir eftir Brynjólf Þórðarson. Vitanlega dettur mjer ekki í hug að segja, að hann sje málari á borð við Ásgrím Jónsson, sem mun vera bestur málari hjer, en miðað við aldur og aðstöðu, er hann í fremri röð. Nú er þessi maður veikur bæði af liðagigt og berklum. Hann er nú sem stendur á Vífilsstaðahæli, og hefir læknirinn þar skrifað, að ef hann væri einn vetur í mildara loftslagi, mundi honum geta batnað gigtin og ef til vill náð sjer alveg. Hjer er nú ekki um nema 1500 kr. að ræða, og er það ekki meira en kostað er til berklasjúklinga hjer heima; og hjer stendur alveg sjerstaklega á, þar sem honum getur ekki batnað án loftslagsbreytingar.

Hann gæti líka ef til vill stundað list sína, samfara því að leita sjer heilsubótar, t. d. við sjó á Ítalíu, og er það nokkursvert atriði, því að þessi maður mun vera einn af þeim fáu málurum hjer, sem hafa lært án þess að fara til muna utan.

Þá á jeg aðra brtt. við 16. gr., nýjan lið, sem jeg flyt með háttv. þm. Vestm., um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals. Jeg held, að ræða hæstv. fjrh. um lánsheimild til Boga Þórðarsonar hafi verið góð röksemd fyrir þessari till. okkar. Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á það, að styrkja bæri innlendan iðnað og innlent framtak, og það er nú einmitt það, sem um er að ræða hjer. Ólafur Hvanndal er eini maðurinn, sem leggur stund á þessa iðn hjer, og það er með þetta eins og annan innlendan iðnað, að það er erfitt, einkum í byrjun, að standast samkepni við útlendinga. Hjer við bætist, að hann getur ekki fengið lærlinga nema með því að bjóða betri kjör en meistarar í öðrum greinum þurfa að bjóða, og er það af því, að það þykir ekki fýsilegt að leggja stund á þessa iðn. Með tilliti til þessa, sem jeg nú hefi talið, og þess, að það er nauðsynlegt að hafa einhvern, sem geti leyst þetta starf af hendi hjer, held jeg sje hægt að leiða rök að því, að það sje rjett að gefa þessar 4 þús. kr. eftir. Jeg held, að það væri ekki annað en sanngjarn stuðningur við þetta og gæti orðið til þess að þessari iðn yrði haldið áfram, en annars er líklegt, að maðurinn neyðist til að leggja árar í bát, og væri það illa farið. Jeg vil svo geta þess, af því að það er gaman að athuga það, að Ólafur Hvanndal gat gert á einni nóttu myndina af þingsetningunni í vetur; jeg vil ekki segja, að sjerstök ástæða hafi verið til að birta þá mynd, en það sýnir, hve mikið hagræði það er fyrir hlöðin, að einhver sje til, sem geti annast um þetta hjer, í stað þess að senda hverja frummynd til útlanda.

Þá kem jeg að 2 síðustu brtt. mínum, um styrk til Íslendingaheimilis í Oslo og í Kaupmannahöfn, og skal jeg fara um þær nokkrum orðum.

Í Oslo er Íslendingur, sem heitir Ingimundur Eyjólfsson ljósmyndari, og hefir hann verið einskonar ræðismaður Íslendinga í Oslo undanfarin ár. Hann hefir hjálpað fjölmörgum Íslendingum eftir mætti, t. d. stúdentum og iðnnemum til að halda áfram námi. Þessi maður hefir orðið fyrir því, að hann hefir að nokkru týnt niður að tala móðurmálið, og er það eðlilegt, því að hann fluttist til Oslo fyrir ca. 25 árum og þá voru sárfáir Íslendingar í Noregi. Sem sagt, hann talar norsku, en skilur og skrifar sæmilega íslensku. En það, að gleyma málinu, vill hann ekki að verði örlög Íslendinga í Noregi, og þess vegna berst hann nú fyrir því að koma upp Íslendingaheimili í Oslo. Og nú er svo komið, að þessi ljósmyndari er búinn að aura saman um 20 þús. kr. til heimilisins í gjöfum og samskotum og með aðstoð ýmsra ágætismanna, norskra Íslandsvina.

Hann hefir reynt samskot hjer heima, en það hefir verið lítið tekið undir það. Jeg var svo heppinn, þegar jeg var í Oslo í sumar, að geta verið viðstaddur fyrirlestur hjá prófessor Paasche einusinni, þar sem um 500 menn voru samankomnir, og gekk allur ágóðinn til Íslendingahússins. Jeg skal ennfremur geta þess, að frægasti myndhöggvari Norðmanna og þó víðar væri leitað, Gustav Vigeland, styrkir Ingimund í þessari baráttu, vegna þess, að hann telur sig í skuld við fornbókmentir vorar.

Jeg hefi gert ráð fyrir því, ef þingið vildi styrkja þetta fyrirtæki, að styrknum yrði skift á 3 ár, og væri þetta þá fyrsta veitingin, 7 þús. kr. Það er talið, að með um 20 þús. kr. styrk sje hægt að koma þessu í framkvæmd.

Þá kem jeg að öðrum lið, sem sje rekstrarstyrk til Íslendingaheimilis í Kaupmannahöfn, og vil jeg leyfa mjer að færa þau rök, sem jeg tel óyggjandi, fyrir því, að þessu ætti að sinna.

Það eru þá upptök þessa máls, að í Höfn er Íslendingafjelag, sem er mjög óánægt með að hafa ekki neina miðstöð, þar sem menn geti komið saman. Fjelagið vill helst taka á leigu stórt hús og koma þar upp heimili, sem hefði að bjóða ýmislegt, svo sem íslenskar bækur, blöð og tímarit o. s. frv. Auk þess ættu þar að vera haldnir fyrirlestrar um íslensk efni, og ætti þessi starfsemi að vera nokkurskonar trúboð meðal Íslendinga í Höfn, til að hjálpa þeim til að viðhalda þjóðerni sínu og sambandinu við föðurlandið og menningu þess.

Til þess að koma þessari starfsemi á stað þarf fjelagið að fá nokkurn styrk, og álít jeg, að það væri ekki sanngjarnt að neita um þessar 2 þús. kr., ef sá styrkur gæti orðið til þess að koma þessu áleiðis. Jeg skal taka það fram, að jeg álít ekki heppilegt að veita einstökum mönnum styrk í þessu skyni, og að eðlilegast væri, að heimilið stæði undir yfirstjórn íslensku skrifstofunnar í Höfn, hvort sem þar væri um umboðsmann eða sendiherra að ræða, og væri þá heimildin ekki notuð nema formaður skrifstofunnar áliti, að það mundi koma að rjettum notum.

Jeg skal geta þess, að jeg hefi átt tal um þetta við þann mann, sem var fulltrúi landsins í Höfn fyrir nokkrum árum, en er nú hjer búsettur, og telur hann, að það mundi vera mikil bót að því að hafa slíkt heimili fyrir landa, sem skrifstofan ekki nær til. Auk þessa má koma með sjerstök rök, sem benda á, að það væri misráðið að spara 2 þús. kr. með því að fella þennan lið. Til Hafnar fer fjöldinn allur af íslenskum stúlkum, og þær fara þangað mest af þeirri algengu æfintýraþrá, sem ungu fólki er í brjóst lagin, til að nema og kanna ókunna stigu, en lenda svo oft í hinum mestu vandræðum. Þær taka það svo fyrir að fara á saumastofur, og skal jeg geta þess t. d., að jeg vissi til þess einu sinni, að á einni saumastofu í Höfn voru 40 íslenskar stúlkur. Í þessum saumastofum er kaupið svo lágt, að þær geta naumast lifað af því, og leiðin út í spillinguna. er hvergi greiðari en úr illa launuðum saumastofum. Þær koma fátækar að heiman og fara þaðan í ráðleysi, en þann straum er örðugt að hindra. Jeg er sannfærður um það, að ef roskinni konu, sem hefði lífsreynslu og samúð með þeim, sem bágt eiga, og skildi þetta fólk, væri fengin umsjón með þessu heimili, þá hefði hún betri aðstöðu en nokkur annar til að vinna að því, með brjefaskriftum og öðru slíku, að fá þessar stúlkur til að hverfa heim aftur. Þær hafa farið að heiman til þess að verða meiri menn, en hafa orðið minni, og vilja svo ekki koma aftur, heldur þvælast áfram í sífelt meiri vandræðnm.

Það kann að vera, að til sjeu betri ráð til að ráða bót á þessu böli en þau, sem jeg hefi bent á, en þar sem ekki hefir verið bent á annað, vænti jeg þess, að þessi heimild verði samþykt.

Viðvíkjandi heimili í Oslo er þar um annað að ræða. Þangað sækja aðeins námsmenn og þeir eru þar staddir í höfuðborg ágætrar frændþjóðar. En í Höfn er, auk námsmanna, fjöldi af íslensku fólki, sem þarf að hjálpa til að viðhalda þjóðerni sínu. Og Íslendingaheimili ætti að geta gert mikið í þá átt.