30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jón Baldvinsson:

Eins og við er að búast, eru ekki allir á eitt sáttir í jafnmiklu stórmáli og þessu. Það hafa nú komið fram talsverðar aðfinslur við þetta frv., og ætla jeg ekki að fara að verja það, En jeg vil benda á það, að úr því, sem einkum er fundið að frv., er bætt með frv. mínu um einkasöluna, sem er á dagskrá næst á eftir þessu frv. Menn hafa einkum fundið það að frv., að margir hinir smæri framleiðendur væru útilokaðir, þeir hafi enga hönd í bagga með sölunni og komi ekki nærri henni. Úr þessu er bætt með mínu frv., þar eru allir jafnt settir, svo að þeir, sem hafa aðfinslur við þetta frv., ættu að geta gengið inn á mitt frv.

Hv. þm. Borgf. hafði margt á móti frv. Hann ljet orð falla í ræðu sinni, sem mjer þykja mjög óþörf og óviðeigandi. Hann var að tala um síldarútveginn og taldi þann atvinnuveg, að því er mjer skildist, mjög óþarfan, vegna þess, hvað hann tæki mikið vinnukraft frá landbúnaðinum.

Jeg er sammála hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og hv. þm. Ak. (BL) um það, að síldveiðin er svo mikill þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar, að það væri verulegt tjón fyrir þjóðina, ef hún fjelli niður. Því er það rangt af hv. þm. Borgf. að ráðast að því fólki, sem stundar hana, og kalla það landshornafólk, ruslaralýð og öðrum þessháttar nöfnum. Svona orðbragð er mjög óviðeigandi að viðhafa á Alþingi. Það kom líka fyrir í fyrra á einu þskj., og vítti jeg það þá líka. Það sæmir síst alþm. að víkja svona orðum að fólki, sem er að leita sjer atvinnu til þess að geta sjeð fyrir sjer og borgað tolla og skatta í ríkissjóðinn, sem mjer finst hv. þm. Borgf. ekki hafa verið ófús að leggja á.

Hv. 2. þm. G.-K. vjek ögn að ræðu minni, rakti sögu málsins og sagði, að ástæðan til þess, að bæði þessi frv., mitt og þeirra, væru fram komin, væri skipulagsleysi það, sem hefði átt sjer stað með síldarsöluna, og hve lítið væri gert til þess að útvega nýja markaði fyrir síldina, því að áhættan væri svo mikil við þessa útgerð, að menn gætu aðeins gert út, en treystu sjer ekki til þess að útvega nýja markaði, vegna þess að þeir hefðu ekki nægilegt fje til þess. Er það því höfuðkostur beggja þessa frv., að það á að leggja fram mikið fje til þess að útvega nýja markaði. Hinsvegar er skiljanlegt, að hv. 2. þm. G.-K. vilji gera sem mest úr muninum á frv. En bæði eru þó svipuð, nema hvað mitt er öllu fyllra.

Það stendur í 1. gr. frv. á þskj. 424, að ráðherra sje heimilt að veita fjelagi einkasölu. En í frv. mínu er það aftur á móti ríkissjóður, sem tekur að sjer alla sölu á útfluttri síld. Í báðum frv. er um einkasölu að ræða. Hjá sjútvn. eru það þeir menn, sem áður hafa fengist við söltun og sölu síldar, sem framkvæma þetta. Þá ber það að athuga, að fyrstu 2 árin skipar ríkisstjórnin framkvæmdarstjórn þessa fyrirhugaða fjelags, alveg eins og eftir mínu frv. Jeg fæ ekki sjeð neina frambærilega ástæðu hjá háttv. 2. þm. G.-K. fyrir þeim mun, er sje á því að ríkisstjórnin skipi framkvæmdarstjórn fjelagsins eða þá hreint og beint skipi menn til þess að annast einkasöluna í umboði ríkissjóðs. Hv. 2. þm. G.-K. játaði þó, að þetta ætti ekki að vera svo til frambúðar. En meðan verið er að koma skipulaginu á og þegar mest ríður á, að örugglega sje um hnútana búið, þá á ríkisstjórnin að skipa þá menn, er framkvæma eiga verkið, alveg eins og í frv. mínu. En það er annars langt frá því, að jeg ætli að fara að tileinka mjer nokkuð úr frv. meiri hl. Það er alls ekki þess vert.

Þessi hugmynd, sem hjer kemur fram, er alls ekki ný. Hún kom fram á þinginu 1921. þegar samþykt var í frv.formi, eða að minsta kosti sem varatill. við það, að stjórnin gæti tekið að sjer einkasölu á síld, ef þurfa þætti.

Þá komst háttv. 2. þm. G.-K. í lok ræðu sinnar upp á háa tóna hinnar frjálsu samkepni. En það er þó meiri skerðing á persónulegu frelsi í frv. nefndarinnar heldur en í mínu frv. Því eftir frv. sjútvn. er aðeins fáum útgerðarmönnum ætlaður umráða- og sölurjettur á síldaraflanum, en allur fjöldinn af útgerðarmönnum og þeim, er að veiðinni vinna, er enginn rjettur ætlaður.

Svo kom nú þessi hv. þm. með sterka yfirlýsingu um, að enn væri langt til þess að hann kæmi til einkasölupostulanna. Lýsti hann síðan mjög skáldlega, að hann byggi nú í björtum sölum frjálsrar samkepni, en jeg í dimmum húsum einkasölunnar. En mjer fanst lýsingin benda til þess, að hann væri nú kominn í glerhús og væri að mælast til þess, að menn köstuðu ekki steinum að sjer. Og skal jeg taka það til greina hjá hv. þm. En hinsvegar þarf jeg ekki að biðja neins slíks, því þótt jeg gangi inn á þá lýsingu hans, að jeg sje ekki í neinum björtum sölum og ekki sjeu þar eins margir glergluggarnir, þá þolir það vígi, er jeg bý í, þótt kastað sje að því steinvölu.