27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1927

Einar Árnason:

Jeg hefi leyft mjer, ásamt hv. 2. þm. S.-M. (IP), að flytja litla brtt. á þskj. 418,IX um 6 þús. kr. styrk til framhaldskenslu fyrir þá, sem tekið hafa gagnfræðapróf við gagnfræðaskólann á Akureyri og kysu að halda þar áfram námi. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá var eftir heimild þings og stjórnar 1924 tekin upp sú nýbreytni við skólann að halda uppi framhaldskenslu fyrir þá gagnfræðinga, sem þess óskuðu. Tóku 22 nemendur þátt í þessari kenslu fyrsta veturinn, þar af 11, sem lásu latínu og aðrar námsgreinar, sem kendar eru í lærdómsdeild mentaskólans. En hinir 11 stunduðu einkum nýju málin, fleiri eða færri, en sumir aðrar einstakar námsgreinar. Á þessu skólaári er framhaldsdeildin í tvennu lagi, er svarar til 4. og 5. bekkjar mentaskólans. Nú sækja þetta nám 11 menn frá fyrra ári, sem eru nú við nám í 5. bekk og búast við að taka stúdentspróf næsta vetur. Ennfremur 16 nýir menn, sem luku gagnfræðaprófi á síðastl. vori, og eru aðeins 4 eða 5 þeirra, sem búast til stúdentsprófs, en hinir lesa einstakar námsgreinar, einkum nýju málin. Alls eru því við framhaldsnám á þessu skólaári 27 nemendur. Kensluna annast aðallega kennarar skólans sjálfs, það sem þeir geta komist yfir. En þó hefir orðið að kaupa aukakenslu, einkum í tungumálum, því kennararnir hafa í sjálfu sjer verið að starfa við sjálfa gagnfræðadeildina. Það hefir því ekki orðið hjá því komist, þar sem auka hefir þurft við kenslukraftana, að auka það fje, sem til kenslunnar hefir gengið. Hafa þeir nemendur, sem taka þátt í öllum námsgreinum, borgað 120 kr. í kenslugjald, og hinir hlutfallslega eitthvað minna. Auk þess hefir fjár verið aflað í þessu skyni með því að halda samkomur og hlutaveltur, auk þess sem einstakir menn hafa lagt fram fje úr eigin vasa. En það er að vonum ekki hægt við því að búast, að hægt verði að afla þess fjár, sem þarf til framhaldskenslu þessarar framvegis, á þennan hátt, og því hefir Stúdentafjelag Akureyrar sem beiðni um 6000 kr. styrk til þess, að framhaldsnám þetta geti haldist. Það er fyrirsjáanlegt, að ef þessi styrkur fæst ekki, þá verður kensla þessi að falla niður. En jeg er viss um, að þess verður mjög saknað, og má telja það mikinn skaða, ef svo færi. Ef hún legst niður, þá er tvent til: annaðhvort verða efnilegir piltar, sem þarna stunda nám, að hætta, eða ef fjárhagslegar ástæður leyfa, þá að sækja nám hingað til Reykjavíkur. Og verður þá ekki annað sjeð, eftir því sem reynslan bendir til, en stækka yrði mentaskólann hjer. Því það er svo komið hjer nú þegar, að skólinn rúmar ekki nemendurna. En á Akureyri er nóg rúm í gagnfræðaskólanum til þess að þessi kensla geti farið fram. Og eftir því sem hjer fjölgar nemendum, þá verður að fjölga kennurum hjer við mentaskólann. Það liggur þá eins nærri að nota það húsrúm, sem ríkið á nyrðra, og auka þá heldur við kenslukraftana þar. Það verður ef til vill sagt, að þetta verði til þess að ýta undir það, að stúdentum fjölgi í landinu, ef kenslu er haldið áfram fyrir norðan: Um það skal jeg ekki deila, því það er í sjálfu sjer ekki ástæða til að fara út í slíkt í þessu sambandi. En á hitt er að líta, að fáist ekki þessi styrkur, þá verður annaðhvort, að fátækir en efnilegir menn verða að hætta námi, eða að öðrum kosti verður að stækka Reykjavíkurskólann. En þess ber einnig að gæta, að hjer er ekki aðeins um það að ræða að búa menn undir stúdentspróf, heldur einnig að gefa þeim, sem lokið hafa gagnfræðaprófi, kost á því að auka við þekking sína í þeim námsgreinum, sem þeir helst hafa áhuga á og náttúru fyrir, og er það oftast tungumálanám. Skólameistari hefir sagt, að reynslan staðfesti það, að ef þeir, sem ljúka gagnfræðaprófi, hafa ekki fengið þá mentun, sem nægi til þess, að þeir geti sjálfir bjargast við og haldið áfram að auka, þeir verða að eyða miklum tíma til þess að fá þá undirstöðu í tungumálakunnáttu, er þeir geti bygt ofan á; og ef þeir eiga ekki aðgang að stofnun, sem geti veitt þeim þessa viðbót, þá getur svo farið, að undirbúningur sá, er þeir hafa fengið, verði að engum notum.

Sá styrkur, sem hjer er um að ræða, er ekki svo mikill, að hann muni ríkið neinu. En hann munar nokkru þá fátæku nemendur, sem þarna eru að brjótast áfram til þess að tryggja sjer gagnið af þeirri mentunarundirstöðu, sem þeir hafa þegar fengið. Og einnig greiðir það fyrir þeim, sem vilja búa sig undir háskólanám síðar meir. Og jeg get ekki sjeð neitt hræðilegt við það, þó eitthvað af þessum mönnum taki stúdentspróf.

Jeg býst við því, að deildin taki þessu vel, og sje ekki ástæðu til þess að fara um till. fleiri orðum.