30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller:

Hæstv. atvrh. svaraði að vísu öllu, sem jeg spurði um, en þó á þann veg, að þessi atriði eru jafnóljós og áður. Hann sagði, að hjer væri aðeins um heimild að ræða og stjórnin væri ekki skyld til þess að veita þessi fríðindi hvað lítilfjörlegu fjelagi sem væri og um það sækti. Mjer skilst líka á umr., að það sje ætlun hv. flm. að gera einhverja umbót á þessu fyrir 2. umr., og mun þá frv. skána eitthvað. Hitt hefi jeg ekki enn heyrt, að gefið hafi verið neitt fyrirheit um að láta þennan fjelagsskap ná alment til allra þeirra, sem framleiða þessa vöru.

En sje það ekki gert, eða ef fjelagið er ekki stofnað sem framleiðendafjelag, þá er ekki hægt að losna við hina svokölluðu leppa. Því hefi jeg undrast það, að hv. flm. hafa ekki vikið að þessu einu orði.

Hitt hafa þeir sagt, og þó einkum hv. 2. þm. G.-K., að þessi fjelagsskapur ætti að verða til þess að lyfta undir með hinum raunverulegu framleiðendum, því að starfsemi fjelagsins ætti að miða að því að hækka verð vörunnar. Þetta getur verið. Hinsvegar skildist mjer á hv. þm. Ak., að hann gerði eiginlega ekki ráð fyrir, að svo mundi verða, heldur mundi fjelagið verða til þess að jafna og tryggja verðið. Hjer er altaf talað um það, að það sje um að gera að tryggja verðið, svo að það geti undir flestum kringumstæðum ríflega numið framleiðsluverði. Mjer skilst því, að hjer sje ekki reiknað með verulegri verðhækkun, heldur verðjöfnuði, svo verðið sje ekki annað árið geysihátt, en hitt neðan við allar hellur, eða að öðrum kosti mjög misjafnt á sama ári, þannig að það sje hátt framan af, en falli svo óhæfilega þegar á líður. Ef síldin hækkar, þá ætti það að koma framleiðendum að gagni. En þó er ekki trygging fyrir því, að svo verði eins og vera ætti, vegna þess, að hjer er kaupendum fengin í hendur aðstaða til þess að ráða verðinu á nýju síldinni.

Hv. frsm. vjek að því, að menn ættu að salta altaf dálítið fyrir eiginn reikning, og má vera að þá sje hagur þeirra tryggari. En þá er hitt, að til þess þarf ýmiskonar aðstöðu, sem margir geta ekki haft. Það er svo takmarkað, hvað margir geta stundað söltun, en fjöldinn allur sem veiðina stundar og engin tök hefir á að salta og verður að selja aflann jafnóðum og veiðist.

Hv. flm. leggja mikla áherslu á það, að valdið sje í höndum fárra manna. En hvaða breyting verður á því? Ef valdið yfir erlenda markaðsverðinu er nú í höndum fárra manna, þá er það víst, að það verður það alveg eins eftirleiðis. En þar við bætist þá aðeins, að valdið yfir innlenda verðinu, á nýju síldinni, kemur líka í örfárra manna hendur.

Þá sagði hv. frsm., að jeg hefði verið að hnýta í síldarútgerðarmenn fyrir það að hafa ekki aflað sjer markaðs fyrir vöru sína; og hv. 2. þm. G.-K. fanst jeg vera að draga dár að hv. frsm. fyrir það að hafa ekki vitað um söluhorfur í Þýskalandi. Jeg vil benda á eitt, sem fram hefir komið í þessum umr., og það er það, að ekkert hefir verið upplýst um það, hve mikið væri hægt að selja af síld í Þýskalandi. Það nægir ekki að vitna í ummæli einhvers manns í Hamborg, sem hafi sagt, að hann mundi geta selt alla síld, sem hjer er verkuð. Jeg veit til þess, að Þjóðverjar hafa aflað hjer síld og verkað hana alveg á sama hátt og Íslendingar að nokkru leyti, en sumt þó með nokkuð öðru móti en hjer tíðkast. En hvernig stendur þá á því, þar sem menn hafa vitað svo lengi um þennan markað, a. m. k. frá því nokkru fyrir 1910, að ekkert hefir verið gert til þess að koma íslenskri síld þangað? Setjum nú svo, að stjórnin styrkti síldarútgerðarmenn til þess að reyna þennan markað og þeir hefðu samtök um að verka einhvern hluta framleiðslunnar þannig að hann væri seljanlegur á þessum markaði. Eftir því, sem hv. frsm. segir, þá þarf verðið sem fæst, að vera rösklega framleiðsluverð. En væri ekki rjett að reyna þessa leið til að tryggja söluna áður en gripið er til örþrifaráða?

Hvað viðvíkur upplausnarmöguleikum þessa fjelagsskapar, þá hefir skotist yfir að setja ákvæði um það í þessi lög. Ef þau eru ekki sett í þessi lög, þá verða þau að vera í lögum fjelagsins. Það er nú að vísu tekið fram hjer, að stjórnin skuli samþykkja fjelagslögin, svo hún getur að vísu haft nokkuð um það að segja, hvernig þau verði úr garði gerð. En það er vitanlega spurning, hvað stjórninni sýnist að samþykkja. Ákvæðin gætu t. d. verið þannig, að fjelagið skyldi halda áfram meðan einhverjir fjelagsmenn vilja; að það haldi áfram. Slíkt er hugsanlegt, og þá er í raun og veru ekki hægt að leysa fjelagið upp. Þegar lepparnir eru farnir, svo sem til er ætlast nú, þá er við því að búast, að það komi einhver fjandinn annar, sem nái í tögl og hagldir í þessum fjelagsskap, og vilji þá auðvitað halda honum sem lengst áfram, þó byrjunin sje góð og bygð á einlægum ásetningi til umbóta. En það er ekki hægt að segja fyrirfram, þegar slíkur fjelagsskapur er stofnaður, hvernig hann kunni að breytast með tímanum. Það er engin trygging fyrir því, að hann geti ekki orðið enn skaðlegri en lepparnir eru nú. Slíkt er ekki einsdæmi. Við þekkjum hliðstæð dæmi annarsstaðar frá. Í sumum öðrum löndum eru sett sjerstök lög til þess að tryggja þjóðirnar gegn slíkum fjelögum. Og það voru hjer nýlega töluð orð úr ráðherrasæti um tryggingarráðstafanir, sem ef til vill þyrfti að gera, að vísu gegn erlendu en ekki innlendu fjelagi. En að því getur komið, að hjer gefist sjerstök ástæða til slíkra ráðstafana, og menn ættu að varast að vekja hjer upp þann draug, sem síðar gæti orðið ilt að ráða við.