04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

110. mál, sala á síld o. fl.

Pjetur Ottesen:

Jafnvel þó jeg búist við, að það komi í sama stað niður að því leyti, að jeg mun halda brtt. minni á þskj. 479 fast fram, ætla jeg þó að verða við tilmælum háttv. frsm. um að taka hana aftur nú að þessu sinni, svo að hv. nefnd gefist kostur á að ræða þetta atriði nánar og taka afstöðu til hennar.

Hv. nefnd hefir að sumu leyti tekið til greina athugasemdir, sem gerðar voru við 1. gr. frv. við 1. umr., þannig að nú hefir þessum ákvæðum verið breytt svo, að fleiri menn þarf til að stofna fjelagið og þátttakan í stofnun fjelagsins ekki bundin því skilyrði, að þeir hafi flutt út síld, en lengra nær þó þessi ívilnun ekki en það, að samkvæmt 13. gr. frv. hafa þeir ekki atkvæðisrjett og fá ekki að hafa hönd í bagga með framkvæmdum fjelagsins. En þetta er vitanlega öldungis ófullnægjandi. Við þessa fjelagsstofnun eiga þeir einir að koma til greina, sem ætla að flytja út, salta eða veiða síld á þessu sumri. Þetta verður að telja alveg sjálfsagðan hlut, og ekki síst af því, að háttv. frsm. hefir játað, að það væri jafnvel hæpið, að tilgangi fjelagsstofnunarinnar yrði náð: ef eitthvað ber út af, þá bitnar það vitanlega fyrst og fremst á þeim, sem láta síldina í einkasöluna. Hv. frsm. talaði um fjelagsstofnunina sem tvísýna tilraun, og því tel jeg óeðlilegt, að þeim mönnum, sem ekki ætla að gera út í ár, verði leyft að taka þátt í fjelagsstofnuninni, enda þótt þeir hafi áður gert út á síldveiðar, t. d. síðastliðið ár. Jeg tel þátttöku slíkra manna mjög óeðlilega. Þar sem telja má víst, að ýmsir þeirra, sem gerðu út á síðastliðnu sumri, muni einnig halda útgerðinni áfram í ár, þá þarf ekki að óttast, að þessi fjelagsskapur hafi ekki við næga reynslu að styðjast. Jeg vænti því, að þetta verði tekið til greina og samkomulag náist milli mín og nefndarinnar um þetta. Jeg hefi þegar talað um þetta við tvo nefndarmenn. og hafa þeir tjáð sig þessu samþykka. Það er alment viðurkent, að einn aðalþátturinn í því að tryggja þessa atvinnugrein og fá betri markað, er að offylla ekki markaðinn. En um hitt er deilt, hvernig þetta verði gert. Hv. frsm. sagði að þetta væri sjerstaklega erfitt, vegna þess að aldrei yrði vitað með vissu um veiði Norðmanna utan landhelgi, fyr en orðið væri um seinan. Samkvæmt upplýsingum, sem jeg hefi fengið um þetta, mun veiði Norðmanna utan landhelgi undanfarin ár hafa verið um 2/5 af allri framleiðslunni hjer við land. Þetta er að vísu talsvert breytilegt ár frá ári, en þó tel jeg, að nokkra hliðsjón megi af þessu hafa.

Eftir því sem mjer er sagt, er nú trygður allöruggur markaður fyrir kryddsíld í Svíþjóð, og mun mega áætla, að jafnaðarlega seljist þar um 40 þús. tunnur á ári. Nú er vitanlega nauðsynlegt að halda þessum markaði framvegis, en mjer skilst, að engin takmörk sjeu sett um kryddsíldarsöltunina, og þá gæti svo farið, að meira yrði verkað af síldinni á þennan hátt en markaðurinn þyldi. Þó ganga megi út frá því, að stjórn fjelagsins sendi ekki meira af kryddsíldinni en nokkurn veginn væri víst um að markaðurinn þyldi, þá skilst mjer, að svo mikill kostnaður muni vera á kryddsöltun, að sjálfsagt sje að girða fyrir það, að verið sje að leggja í slíkan kostnað með þá síld, sem svo yrði ef til vill að láta í bræðslu á eftir. Því tel jeg nauðsynlegt, að fjelagið fái heimild til að takmarka kryddsöltunina. Jeg tel, að það mundi koma að góðu gagni, að heimild sje til að takmarka, hvað mikið er saltað af síld. Það er altaf nokkur kostnaður, þó ekki sje nema um venjulega söltun að ræða, að þurfa að taka þá síld til bræðslu. Það er því allverulegt hagsmunamál að geta stilt svo í hóf með söltunina, að ekki sje saltað meira en það, sem hinn raunverulegi saltsíldarmarkaður leyfir.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta en mun verða við tilmælum hv. frsm. og taka brtt. mína aftur til 3. umr., og mun jeg verða fús til að ræða þetta mál við hv. nefnd, en jeg mun halda fast fram þessari skoðun minni og vænti, að brtt verði tekin til greina, því jeg hygg, að þetta sje til bóta fyrir málið.