04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

110. mál, sala á síld o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vildi aðeins taka það fram, að jeg tel brtt. hv. meiri hl. til bóta, en jeg er líka samþykkur hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um, að athuga þurfi betur ákvæðin um, hverjir skuli vera fjelagsmenn og að hve miklu leyti þeir skuli hafa atkvæðisrjett. Jeg sagði við 1. umr. þessa máls, að það væri eðlilegast, að þeir einir væru fjelagsmenn, sem þess óskuðu, en ekki ætti að neyða menn til þess að ganga í fjelagið. Menn eiga heldur ekki að geta verið fjelagsmenn lengur en þeir vinna að þessum atvinnuvegi.

Jeg sje ekki ástæðu til að vera á móti brtt. hv. þm. Borgf. Í seinni brtt. er aðeins tekið fram, að stjórn fjelagsins sje heimilt að ákveða fyrir eitt ár í senn, hve mikla síld megi salta til útflutninga. Það gæti komið fyrir, að ástæða væri til að banna frekari söltun, t. d. ef ágætlega veiddist innan og utan landhelginnar og búið væri að salta kannske 250–300 þúsund tunnur. Jeg tel því ekki rjett að vera á móti slíkri heimild.