05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Eins og sjá má af brtt. á þskj. 496, höfum við flm. ennþá reynt að verða við þeim óskum og athugasemdum, sem komið hafa fram við hið upphaflega frv. okkar. Og mjer er óhætt að lýsa því yfir jafnframt, að hv. þm. Borgf. og nefndin eiga sameiginlega þessa brtt. Það er með öðrum orðum tekið upp, sem hv. þm. Borgf. lagði til, að þeir gætu verið með í fjelagsstofnun, sem ætluðu sjer að stunda útveg eða síldarsöltun á yfirstandandi ári, ef þeir geta lagt fram sannanir fyrir því. Hinu ákvæðinu er líka haldið, að þeir geti líka verið með, sem fengust við slíkt á síðastliðnu ári, án þess þeir geti nú þegar fært verulega ábyggilegar sannanir fyrir að ætla að gera þetta í ár.

Þá er önnur brtt. á þskj. 496, þar sem líka er tekin upp brtt. hv. þm. Borgf. um hemil á, hve mikið megi salta. Sá galli er á, að þar hefir fallið úr eitt orð. Í brtt. stendur: „Fjelagsstjórninni er heimilt að ákveða fyrir eitt ár í senn, hve mikla síld megi salta til útflutnings.“ Þarna vantar inn á milli „og krydda.“ Eins og hv. þm. Borgf. benti á, þá er hjer einna mest þörf á að takmarka framleiðslu kryddsíldar. Fyrst og fremst er svo miklu til hennar kostað, að það myndi verða mjög mikið tjón, ef nokkurntíma kæmi að því, að slíka síld þyrfti að setja í verksmiðju. En aftur á móti má henda á það, að síld, sem er sæmilega krydduð, endist miklu lengur en söltuð síld. Og það er vitanlegt, að ef fyrir liggja birgðir frá næsta ári óseldar, er minni hvöt fyrir menn að krydda mikið árið eftir. Þetta gæti orðið til að fyrirbyggja allan háska, sem af þessu gæti stafað. En af því að komið hafa fram raddir frá þeim mönnum, er talsvert skyn bera á þessa atvinnugrein, að heimilað væri í lögunum að takmarka veiðina, þá þótti rjett að taka þessa heimild inn í lögin, í trausti þess, að hún verði varlega notuð.

Þessar brtt. koma í stað brtt. á þskj. 475,1 og 4, sem eru teknar aftur.

Jeg vil taka það skýrt fram, að þó í frv. sjeu aðeins nefndir 20 menn, þá er átt við fjelög líka, á þann hátt, að fyrir hvert einstakt fjelag geti ekki mætt nema einn maður. Okkur finst ekki nauðsynlegt að hafa lagatexta um þetta, því að það er undantekningarlaus regla, að slík fjelög geta ekki mætt nema fyrir munn eins fulltrúa.

Hv. 3. þm. Reykv. kom með ýmsar athugasemdir við frv., sem reyndar hafa allar við einhverja möguleika að styðjast. En jeg verð að segja, að mjer virðast þær yfirleitt allar vera með sama óheppilega markinu brendar, að þar er dregið fram alt það, sem þessum fjelagsskap gæti orðið til falls, en ekki það, sem gæti orðið honum til hags. Hv. þm. er óhætt að trúa okkur til þess, að við höfum opin augun fyrir athugasemdum hans. En við vonum að fram hjá þessu öllu verði stýrt, ef hyggilega er að farið. Hvað snertir stofnun fjelagsins, þá er það ekki af vantrú, að við búumst við, að erfitt verði að fá nógu marga menn, og því síður sem skilyrðin eru rýmileg um það, hverjir geti verið með. En við það, sem stungið var upp á upprunalega, er búið að bæta við svo mörgum, ekki einungis þeim, sem hafa við þennan atvinnurekstur fengist á síðastl. ári, heldur þeim, sem ætla sjer það á næsta ári. Jeg tel það mikið álitamál, hvort það sje rjett að ætla sjer að safna helmingi þeirra manna, sem ætla að salta síld til útflutnings á þessu ári.

Þar sem ekki hafa komið mótmæli frá fleiri mönnum en þetta, þá finst mjer sannast að segja minni ástæða til að heimta meðmæli mjög margra manna; því að vitanlega er það erfiðara að safna meðmælum fjölda manna heldur en að safna mótmælum fjölda manna. Það er yfirleitt svo miklu auðveldara að vekja tortrygni gegn allri nýbreytni heldur en að safna mönnum undir merki fjelagsskapar.

Annars vil jeg benda á það, að Alþingi afgreiðir árlega mikið af bæði merkilegum og ómerkilegum lögum, sem meira og minna grípa inn í persónulegt frelsi manna í atvinnulífinu, án þess að þinginu detti í hug að spyrja borgarana alment. Vitanlega er ekki altaf tekið tillit til þingmálafundargerða, þegar til löggjafar kemur á þingi. Jeg játa að vísu, að hjer er um svo þýðingarmikil lög að ræða, að lengra bæri að fara en venjulega í þessu efni. Jeg hefi bent á erfiðleikana á þessu, en jeg hygg, að um leið og þetta fjelag verður stofnað verði reynt að safna svo mörgum sem unt er undir þess merki.

Áður en jeg lýk máli mínu, ætla jeg að fara örfáum orðum alment um málið, sjerstaklega, vegna þess, að mikið kann að þykja í lögin vanta, þegar ekki er tillit tekið til þess, að gert er ráð fyrir stórri og mikilli reglugerð í skjóli laganna. Vitanlega eru þetta ekki ótæmandi lög. Við flm. litum líka svo á, að rjett væri að gefa atvinnumálaráðuneytinu, sem stendur í sambandi við fjelagsstjórnina, rjett til þess að skipa fyrir um einstök framkvæmdaratriði fjelagsskaparins. Það hefir t. d. verið fundið að lögunum, að engin ákvæði væru um það, hvernig útborga skuli fje fyrir síldina. En þetta á vitanlega best heima í reglugerð. Það verður að haga sjer eins og reynslan kennir, og auðvitað reyna að teygja sig sem allra lengst til þess að borga síldareigendum svo mikið og fljótt sem unt er, til þess að hjálpa við þeirra atvinnurekstri. Það hefir líka verið talinn ágalli af ýmsum, sem sjerstaklega óttast útlent fjármagn til þessa atvinnurekstrar, að ekki væri á neinn hátt sjeð fyrir lánum til þess að halda honum áfram. Jeg get sagt það, að fyrir mjer vakir að reyna að hjálpa þessum mönnum til þess að komast hjá þeim vandkvæðum, sem þeir kunna annars að lenda í af því að þeir eiga ekki aðgang að fje frá útlöndum. Fyrir mínum augum liggur það alls ekki fjarri, að þetta fjelag geti selt fyrirfram svo og svo mikla síld og fengið fyrirfram borgun. Þessu fje mætti verja til þess að styrkja þá menn, sem ætla að stunda þennan atvinnuveg framvegis, og sjerstaklega til þess, að sem allra flest skip geti gengið á síldveiðar á næsta sumri. Það er aðalatriðið.

Jeg tók það fram í framsöguræðu minni við 1. umr. — og hv. 3. þm. Reykv. hefir líka bent á það —, að jeg álít eitthvert vandamesta atriðið í framkvæmd þessara laga að láta Svía skilja það, að hjer er ekki verið að stofna neinn okurhring til þess að gera þeim erfiðara að kaupa þessa neysluvöru sína, heldur þvert á móti. Jeg legg mikla áherslu á, að samvinna við Svía takist á þessum grundvelli. Jeg efast ekki um, að það megi takast, enda er það báðum aðiljum í hag. Og þá er engin ástæða til að óttast, að þeir fari að leggja sjerstaka áherslu á að salta síld sjálfir, eða fá Norðmenn til þess fyrir utan landhelgi. Það vita allir, sem þekkja þennan atvinnurekstur, — og Svíar eru búnir að sjá það fyrir löngu og viðurkenna —, að það er útilokað, að Norðmenn geti verkað síld fyrir utan landhelgi líkt því eins vel og við getum á landi. Svo að það er óhætt fyrir okkur að treysta því, að ef við getum boðið okkar framleiðslu fyrir líkt verð og Norðmenn, þurfum við ekki að óttast neina samkepni.

Þessi mótmæli, sem enn hafa komið fram gegn þessu fyrirhugaða fyrirkomulagi, virðast mjer harla veigalítil, og sum virðast henda á, að menn hafi ekki fylgst með þeim brtt., sem fram hafa komið. Í sambandi við það vil jeg ennþá einu sinni leyfa mjer að vekja athygli á því, að þrátt fyrir það, að mjög alvarlega hefir verið reynt að vekja andúð gegn þessu frv., — sem mjer er persónulega kunnugt um — hefir það þó ekki tekist, nema að því leyti, að einum 5 nöfnum tókst að safna á tveim stöðum undir mótmælaskjöl. Sama nafnið eitt er undir báðum skjölunum. Og þeir, sem mest mótmæla, hafa aldrei átt við síldarútgerð, heldur bara keypt síld, mest af útlendingum.

Þetta finst mjer bera órækan vott um það, að menn eru að minsta kosti mjög hikandi við að mótmæla. En mjer er kunnugt um fjölda útgerðarmanna, sem eru þessu máli eindregið fylgjandi. Og jeg vil segja, að það ættu þó að vera dálítil meðmæli með frv., þegar menn leggja jafnvel sín „princip“ í sölurnar fyrir þetta mál. Það ætti að vera sönnun fyrir því, að þeir telji það þjóðarnauðsynjamál.