05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

110. mál, sala á síld o. fl.

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vildi segja í beinu framhaldi af því, sem jeg sagði við 1. umr. Jeg ætla ekki að koma inn á málið sjálft; jeg geri ráð fyrir að vera því fylgjandi, en áður en jeg get ráðið það fullkomlega við mig, vildi jeg fá svar við spurningu, sem jeg bar fram við 1. umr. og beindi til háttv. nefndar og hæstv. stjórnar. Jeg vakti mála á því, að málið gæti haft tvær hliðar, ekki einungis þá, sem snýr að framleiðendum hjer á landi, sem jeg geri ráð fyrir, að sje vel fyrir komið og tryggilega í frv. hvað hagsmuni þeirra snertir, og gerir mig að því leyti mjög fúsan til að fylgja frv. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að málið hafi líka aðra hlið, sem snýr út á við, og þá sjerstaklega gagnvart frændþjóðum okkar í Skandinavíu. Jeg beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort hún vildi segja álit sitt um það, hvort samþykt þessa máls gæti ekki haft einhver áhrif á aðstöðu okkar gagnvart Norðmönnum. Jeg vil mjög óska eftir að fá álit hæstv. stjórnar og háttv. nefndar, sem jeg geri eindregið ráð fyrir, að hafi um þetta hugsað. Vitanlega fer jeg ekki fram á annað en álit. Fái jeg ennþá ekkert svar um þetta hjá hæstv. stjórn, þá vil jeg þegar bæta því við, að þessi lög eru heimildarlög; og jeg vil krefjast þess, að það verði fullkomlega athugað, áður en farið er að framkvæma þessi lög, að ekki verði neinn árekstur út af þessu.

Jeg vil krefjast þess sömuleiðis, að hæstv. stjórn noti ekki þessa heimild nema því aðeins, að hún telji sig alveg vissa í sinni sök á þessu sviði.

Með þessu fororði geri jeg ráð fyrir að greiða atkv. með þessu frv.