05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller:

Við hv. 2. þm. Eyf. eigum saman nokkrar brtt. á þskj. 505, en jeg tel óþarft að vera fjölorður um þær, þar sem jeg hefi lýst þeim áður, og koma þær því ekki háttv. þingdeildarmönnum á óvart, og vita þeir vel, hvað þær fjalla um. Jeg vil aðeins geta þess, að brtt. 3–4 eru báðar um eitt og hið sama og eru bornar fram sjerstaklega af hv. 2. þm. Eyf., — að heimili og varnarþing fjelagsins sje á Siglufirði, í stað Akureyrar í frv., en háttv. þm. (BSt) mun sjálfur mæla fyrir þeim. Þá er brtt. við 3. gr. frv. frá mjer, er jeg tel mjög nauðsynlega, hvort sem hún verður samþykt eða ekki, að „allir, sem gera út skip á síldveiðar, eða salta síld eða krydda til útflutnings, eigi rjett á að vera fjelagsmenn“, í stað þess að frv. segir „skuli teljast“, enda er það vafasamt, hvort það gefur öðrum rjettinn en þeim, sem salta og krydda síld til útflutnings. Samkv. 1. gr. verða þeir einir meðlimir, sem taka þátt í stofnun fjelagsins, en aðrir ekki. Jeg álít, að þessi brtt. mín sje til talsverðra bóta og sje svo augljós, að ekki þurfi að skýra hana frekar.

Um atkvæðisrjettinn held jeg að verði ekki ágreiningur, að þeir, sem setja aflann á land, en salta ekki til útflutnings, komi einnig þar til greina. En um hitt mun verða talsverður ágreiningur, að til þess að fjelagið geti öðlast rjett til að taka að sjer sölu síldarinnar þurfi fullur helmingur þeirra, sem þessa atvinnu stunda, að hafa tekið þátt í stofnun fjelagsins. En þar eð jeg hefi áður talað fyrir þessari breytingu á frv., orðlengi jeg ekki um það að þessu sinni.

Að öðru leyti get jeg tekið undir orð hv. þm. V.-Sk. (JK) um þetta, sem bæði jeg og aðrir hafa líka áður bent á, og jeg vil bæta því við, að mjer þykir ekki ósennilegt, að verði frv. þetta samþykt, muni fleiri slík frv. koma á eftir og að farið verði fram á, að heimild þessari verði breytt í ríkiseinkasölu, enda er það fyrirkomulag eðlilegast, ef einkasala á að viðgangast á annað borð. Jeg tel t. d. ekki ólíklegt, að upp verði teknar einkasölur á fleiri útfluttum afurðum, t. d. á saltfiski, sem er mjög skylt mál. Þar eru mjög svipaðar ástæður oft og tíðum, framleiðslan verður meiri eitt árið en annað og verðfall verður oft mikið og stórkostlegt á saltfiski, svo að framleiðslukostnaður, sem er ennþá meiri en á síldinni, fæst naumlega og alls ekki endurgreiddur af söluverði fisksins, og er þar ennþá meiri hagsmuna að gæta, vegna þess að bæði er þessi vara, saltfiskurinn, miklu verðmætari vara en síldin og framleiðsla og vörumagn miklu stórfeldara. Háttv. deild ætti því að gefa nánari gaum að þessu og athuga vel, inn á hvaða braut verið er að fara með þessu frv.