05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki skift mjer neitt af samningu þessa frv. nje gert við það brtt. fyr en nú, enda þótt í því sjeu ýmisleg ákvæði, sem jeg hefi illa getað felt mig við. Hinsvegar ber jeg nú fram eina brtt. um stjórn fjelagsins. Eftir frv. sjútvn. er ætlast til, að atvrh. skipi fyrstu stjórn fjelagsins til 4 ára, en þá verður búið að draga út alla þá stjórn og er ætlast til, að fjelagsmenn kjósi ætíð nýja menn í stað hinna, er fara. Er eftir frv. ætlast til, að smámsaman verði eingöngu fjelagsmenn í stjórninni. En nú þykir það hlýða, að verkalýðurinn, sem hagsmuna hefir að gæta í þessum málum, hafi nokkurt atkvæði um þessi mál, og því er þessi tillaga fram borin. Hún fer fram á það, að þriðja mann í stjórn fjelagsins skipi ráðherra eftir tillögum stjórnar verklýðssambands Norðurlands á Akureyri. Og er sá maður fer frá eftir hlutkesti, skal fjelagið velja mann í stjórnina eftir tillögum stjórnar verklýðssambandsins. Í því sambandi eru verkalýðsfjelög um alt Norðurland, en helstu og stærstu fjelögin eru á Akureyri og Siglufirði. Eru því í sambandinu menn, sem hlut eiga að máli, og full vissa fyrir, að þeir gætu lagt til mann, sem fult vit hefir á málinu og veit, hvað verkalýðnum er fyrir bestu. Menn hljóta að sjá það, að oft getur verið freisting fyrir fjelagsstjórnina til að halda síldinni í fullháu verði, enda þótt hv. flm. og frsm. þeirra (BL) leggi áherslu á, að svo verði ekki. Held jeg, að maður frá verkalýðnum gæti orðið til hinnar mestu þurftar í slíku tilfelli.

Jeg skil ekki í öðru en að hv. flm. frv. geti fallist á þessa brtt. Ef þetta skipulag kemst á, verður það til stuðnings fyrir fjelagsskapinn og til þess að gera hann vinsælari — enda mun síst af veita.

Þá vil jeg víkja að einn atriði í 14. gr. frv. Það er þetta ákvæði, að menn eiga að greiða atkvæði eftir tunnum, en ekki eftir höfðatölu. Þetta mun sett í líkingu við hlutafjelögin, þar sem ákveðið er, að krónurnar greiði atkvæði, en ekki mennirnir. Eins er það hjer, að í raun og veru eru það tunnurnar, sem greiða atkvæði. 200 tunnur hafa þannig 1 atkv., þó þannig, að enginn má fara með fleiri en 35 atkv., hvað sem hann hefir umboð fyrir margar tunnur. Þetta fyrirkomulag er mjög óheppilegt. Vitanlega er ákvæðið um 35 atkvæði helber hjegómi, og sá maður, sem hefir 10 þús. tunnur, getur auðveldlega hagað því svo, að hann fengi 50 atkv., með því að skifta atkv. sínum á aðra. Slíkt er algengt í hlutafjelögum, og fyrirkomulagið í 14. gr. gefur óneitanlega tilefni til, að svo verði einnig hjer. Álít jeg þetta vera eitt af lakari ákvæðum frv. —

Þess má geta, að flm. hafa sjálfir verið svo hræddir við þetta, að þeir ákveða í frv., að landsstjórnin skipi fyrstu stjórn fjelagsins, því að annars var hætta á, að enginn Íslendingur kæmist í stjórnina.

Sje jeg ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Vænti jeg þess, að hv. þdm. taki brtt. mína til greina, því að hún er áreiðanlega til bóta.