12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. er borið fram af meiri hl. sjútvn. í Nd. og felur í sjer heimild fyrir ríkjsstjórnina að veita fjelagi, sem á að fullnægja ákveðnum skilyrðum, einkasölu á útfluttri síld, að því tilskildu, að ráðherra samþykki lög þess.

Á þskj. 542, sem er nál. sjútvn. Ed., er gerð grein fyrir þeim ástæðum, er hafa knúð nefndina til þess að leggjast ekki á móti frv. eins og sakir standa nú.

Það er vitanlegt um síldarútveginn, að hann á við alveg sjerstaka erfiðleika að stríða, sem ekki koma fyrir hjá hinum atvinnuvegum landsins, og það er hin svokallaða leppmenska. Er svo að heyra á mönnum, sem kunnugir eru fyrir norðan, að allur fjöldi þess fólks, sem fæst þar við útflutta síld, sjeu leigðir þjónar útlendinga eða leppar. Þetta ástand á ekki sinn líka við útflutning neinna annara afurða lands vors. Mun það vera tilætlun þeirra, sem að frv. standa í Nd., að því sje aðallega stefnt til höfuðs leppmenskunni. Sje það svo, að þeir hafi rjett fyrir sjer og að frv. verði bót á böli þessu, þá getum við, enda þótt við sjeum andvígir öllum takmörkunum á athafnafrelsi manna, fylgt þessu máli fram. Þegar svo er komið, að hjerlendir menn sjá sjer ekki annan kost vænni en að gefast upp við að stunda þennan atvinnuveg eða gerast leppar útlendra stórgróðamanna, er það full rjettlæting fyrir menn að vera með frv. og stuðla að því að koma í veg fyrir ófögnuð þennan, enda þótt þetta brjóti í bága við skoðanir, sem þeir eru fylgjandi.

Nefndin hefir, eins og segir í nál., ekki sjeð sjer fært, þar eð hana vantar sjerþekkingu á þessu máli, að leggja stein í götu frv. En reynslan ein mun skera úr, hvort það kemur því til leiðar, sem menn hafa ætlast til. Jeg vil fyrir mitt leyti, og jeg held jeg megi segja það líka fyrir hönd nefndarinnar, ekki leggja neinn dóm á það.

Önnur ástæðan fyrir því, að nefndin er ekki á móti frv., er sú, að hjer er um heimildarlög að ræða fyrir stjórnina. En það er ekki svo langt síðan mál þetta komst í hámæli, að ekki geti eitthvað það komið fyrir, er geri stjórninni ómögulegt að láta lög þessi koma til framkvæmda. En auðvitað getum við ekkert um það sagt. Og þau mótmæli, er borist hafa til Alþingis gegn frv., eru ekki svo rökstudd, að hægt sje að taka svo mikið tillit til þeirra, að málið verði eyðilagt af þeim sökum einum.

Í einu mótmælaskjalinu er sagt, að með þessari ráðstöfun sje síldarsölumálinu stefnt í tvísýnu. En svo mikið vita menn þó um þetta mál, að það er ekki hægt, að segja, að því með þessu sje stefnt í tvísýnu, þar sem það nú er, sannast að segja, í miklum voða. Jeg veit ekki betur en að það sje nú hreinasta vandræðamál. En þótt till. sjútvn. í Nd. geti að því er þetta snertir ekki verið þær heppilegustu, er þó ekki úr háum söðli að detta fyrir síldarsölumálið.

Það verður auðvitað að vera á valdi stjórnarinnar, hvort hún treystir sjer til þess að framkvæma þessi lög eða ekki. Og jeg sem stuðningsmaður stjórnarinnar treysti henni til þess að gæta hjer allrar varúðar, bæði að því er snertir málið innanlands, og einnig þá hlið þess, sem að útlendingum snýr.

Jeg held, að jeg hafi þá skýrt afstöðu nefndarinnar til þessa máls. Það þurfa að vera mikil rök til andmæla, sem koma ósjerfróðum mönnum til þess að leggjast gegn áliti hinna sjerfróðu manna í Nd. og leggja stein í götu þeirra fyrirætlana, er þeir hafa gert. Vegna þessa vill nefndin ekki vera á móti málinu, þó að henni sje af ýmsum ástæðum óljúft, að farið sje inn á þessa braut. En þar sent svo alvarlegar ástæður eru fyrir hendi, sem hjer virðast vera, getur þetta verið afsakanlegt.