12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

110. mál, sala á síld o. fl.

Sigurður Eggerz:

Þetta er nú annað einokunarfrumvarpið í röðinni, sem háttv. Nd. hefir afgreitt frá sjer á þessu þingi, og enda þótt háttv. Nd. hafi á ýmsan hátt sýnt það, að hún tekur mikið tillit til gerða okkar hjer í þessari hv. deild og hefir farið að vilja okkar í ýmsum málum, sem okkur hefir þótt máli skifta, svo sem í afgreiðslu fjárlaganna og öðrum stórmálum, að ógleymdu hinu mikla „princip“-máli þessarar deildar — kvenfrelsismálinu — þá get jeg þó ekki, þrátt fyrir þetta alt, tekið vel í þetta nýja einokunarfrumvarp frá Nd. Áburðarfrv. sæla fjekk skjótan dauðdaga hjer í deildinni, og ekki hygg jeg ástæðu til að láta þetta frv. sæta öðrum úrslitum.

Jeg sje því miður engan hæstv. ráðherra hjer viðstaddan, en jeg ætlaði að beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar hvort engin hlið væri á þessu máli, er viti út á við, er athuga þyrfti. Jeg fullyrði ekki, að svo sje í þessu frv., en ekki veldur sá, er varir, og stjórninni er skylt að athuga þessar hliðar málanna.

Jeg ætla ekki að fara að rifja upp gamlar almennar mótbárur gegn einokunarstefnunni, en læt mjer aðeins nægja að benda á, að það hlýtur að vera nokkuð óviðfeldin tilhugun fyrir atvinnurekendur, að einir 20 menn, sem verða sammála um að taka þetta mál í sínar hendur. skuli hafa öll þeirra ráð í hendi sjer.

Það er margkunnugt; að á meðal síldarframleiðenda er allmikill ágreiningur um þessi mál, og meðal þeirra manna, sem sjerstaklega má kalla sjerfræðinga á þessu sviði, er einnig mikill ágreiningur. Jeg leyfi mjer einnig að benda á takmarkanir þær, sem gerðar eru á atkvæðisrjetti manna, sem í fjelagið ganga.

Að lokum vil jeg taka fram, að hjer er verið að smeygja inn stefnumáli, sem Alþingi hefir áður lýst sig mótfallið, og verð jeg því eindregið að mæla á móti samþykt þessa frv. og er óhræddur við að taka á mig þá ábyrgð, sem því kann að vera samfara.