12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

110. mál, sala á síld o. fl.

Einar Árnason:

Jeg skal vera mjög stuttorður, því að jeg vildi gjarnan, að umræðu þessari yrði lokið áður en fundi verður frestað. Það eru aðeins fáein orð, sem jeg þarf að víkja að hv. þm. Vesfm. (JJós). Hann sagði, að hann gerði sjer von um, að „leppmenskunni“ yrði afstýrt með samþykt þessa frv. (JJós: Þeir, sem að frv. standa, gera sjer von um þetta). Jeg held, að hv. þm. sje þarna fullbjartsýnn á þetta mál. „Leppar“ þeir, sem til eru, færa sig aðeins til, er lög þessi gera þeim erfiðara að starfa á sama hátt og áður. Þeir færa sig aðeins til og munn gera sitt til í því að offylla síldarmarkaðinn fyrir okkur eftir sem áður. Þegar búið verður að taka fyrir kverkar á allri „leppmensku“ á landi, færa þessir náungar sig aðeins út fyrir landhelgislínuna og starfa þar, fylla markaðinn, en svifta ríkissjóð miklum tekjum af veiðunum.

Hv. frsm. (JJós) mintist á þá menn, sem fengju sjer tunnur og salt gegn tryggingu í aflanum, og vildi telja þá meðal „leppanna“. En þetta er allmikið efamál, hvort rjett er, því að það er yfir höfuð mjög erfitt að þekkja þá frá, sem eru „leppar“, og þá, sem ekki eru það.

Háttv. frsm. sagði, að ríkisstjórnin yrði að bera veg og vanda af þessu máli. Jeg held þó, að ef þingið afgreiðir þetta frv., þá geti stjórnin ekki skorast undan að löggilda fjelag, sem stofnað er samkvæmt þessum lögum og vill starfa samkvæmt fyrirmælum þessara laga. Jeg held, að þingið geti ekki á neinn hátt skotist á bak við stjórnina í þessu máli. Hann mintist á mótmælin gegn þessu frv., sem komið hafa að norðan, og hann fór rjett með samtal það, sem átti sjer stað milli okkar um þetta. Hann taldi mótmælin órökstudd. Jeg játa, að mótmælin voru ekki eins vel rökstudd og jeg hafði vænst eftir. En það er, þegar betur er að gáð, ekki svo auðvelt í fljótu bragði að rökstyðja mótmæli gegn svo vandasömu máli og þessu, og ekki síst, er menn hafa ekki annað til að styðjast við en óljósar símfregnir um málið. Enda er það og erfitt að hlaupa saman allra snöggvast og samþykkja rökstudda ályktun á aðeins einum fundi. En það hefir skýlaust komið í ljós, að fjöldi útgerðarmanna þar norður er andvígur þessu frv. og að þeir hafa stungið upp á öðrum aðgerðum í þessu máli af hálfu þess opinbera, sem þeir telja mundu vera affarasælli fyrir almenning. En af því mjer er þetta persónulega ekkert kappsmál, þá ætla jeg ekki að lengja þessar umræður frekar.