14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg sagði, að þegar hv. 1. landsk. mótmælti eingöngu á grundvelli frjálsrar verslunar í máli sem þessu, án þess að gera tilraun til þess að benda á aðrar úrlausnir, þá væri slíkt bara orð. Hann verður að viðurkenna það, að vilji maður ekki aðhyllast slíkt frv. sem þetta, þá verður maður að leggja eitthvað meira til málanna en aðeins að fella það vegna þess, að það stríði á móti frjálsri verslun. Jeg veit, að hv. 1. landsk. er þetta eins ljóst og mjer. Það er skýrt í nál., að sjútvn. skorti sjerþekkingu til þess að leggja á móti tillögum allra þeirra manna, sem með þessum hafa mælt. En ef hún hefði getað bent á betri lausn á málinu, þá má vel vera, að hún hefði snúist öðruvísi í máli þessu. En við teljum, að hæstv. stjórn gæti vel að því, bæði inn á við og út á við, áður en sjerleyfi er gefið, hvaða áhrif það geti haft á atvinnuveri landsins.