12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

125. mál, seðlaútgáfa

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og endranær, þegar sjeð er fyrir, að endurbætur á skipulagi seðlaútgáfunnar ná ekki fram að ganga, er komið fram með frv. um framlengingu á lögum frá 4. maí 1922 um seðlaútgáfurjett Íslandsbanka. Þetta frv., er hjer liggur fyrir, er því framlenging eins og áður hefir verið og gildir aðeins til ákveðins tíma. Þó hafa nú verið settar inn í frv. 2. greinar, sem ekki voru þar áður. Það er ákvæðið í 2. gr. um, að gjald það, er Landsbankanum ber að greiða ríkissjóði, skuli frá ársbyrjun 1926 vera lagt á sjerstakan reikning og megi verja því eftir ákvörðun stjórnarinnar til þess að bæta Landsbankanum halla, er hann kann að verða fyrir af gengisbreytingum frá sama tíma.

Í 3. gr. er ákvæði um inndráttarskyldu Íslandsbanka og kveður svo á, að Íslandsbanka sje ekki skylt að draga neina seðla úr umferð þetta ár. En eftir núgildandi lögum á hann að draga inn 1 milj. á ári. Þykir þetta nauðsynlegt, til þess að bankinn eigi ekki of erfitt uppdráttar vegna yfirstandandi kreppu í atvinnuvegum landsins. En ef hann þyrfti að draga inn eins og ákveðið er, yrði hann að þrengja mikið að atvinnuvegunum, og gæti það haft illar afleiðingar. Líka styðst þetta ákvæði við það, að það borgar sig illa fyrir bankann að „diskontera“ upp á þau kjör að fá 1% í sinn hlut. Ef um stóra upphæð er að ræða, er ekki hagkvæmt að lána með svo litlum mismun.

Frv. er flutt eftir beiðni stjórnarinnar af meiri hl. fjhn. Leyfi jeg mjer að vænta þess, að deildin geti aðhyllst það.