12.05.1926
Efri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

125. mál, seðlaútgáfa

Ingvar Pálmason:

Eins og jeg gat um við 1. umr., hefi jeg borið fram brtt. á þskj. 586. Jeg hefði í rauninni viljað hafa hana víðtækari, þannig að fella niður 3. gr., en taldi það þó ekki vænlegt vegna þess, að eins og frv. stjórnarinnar hljóðaði, þegar það kom til fjhn., þá var gert ráð fyrir, að 3. gr. hljóðaði eins og ef brtt. mín verður samþykt. Meiri hl. nefndarinnar breytti frumvarpsgreininni í það horf, sem hún nú er í, og þess vegna tók jeg það ráð að koma fram með brtt. við 3. gr., og býst jeg við, að hún verði samþykt. Mjer virðist 3. gr. vera óþörf. Það má að vísu segja, að með því að Íslandsbanki stöðvi inndrátt seðla sinna verði meira gulltrygt af seðlum í umferð. En svo þarf ekki að verða. Það gull, sem losnar við inndráttinn, getur landsstjórnin keypt samkvæmt heimild laganna frá 1922. En þar sem stjórnin hefir viljað haga þessu á þennan veg, þá geri jeg það ekki að kappsmáli og fjölyrði ekki um það. Það orkar ekki tvímælis, að framlenging á heimild landsstjórnarinnar til að gefa út nýja seðla þarf að ganga fram á þessu þingi, þar sem nú er útsjeð um, að seðlaútgáfunni verður ekki ráðstafað að þessu sinni. En jeg vil benda á það til fylgis þessari brtt., að þótt 3. gr. verði samþykt eins og hún er nú, þá er það víst, að stjórnin verður að gefa út mikið af seðlum til þess að fullnægja þörfinni, því að seðlar Íslandsbanka verða alls ekki fullnægjandi. Jeg sje því ekki, hvað það þýðir að stöðva inndrátt, þegar hvort sem er þarf að gefa út seðla. Þetta gerir óþarfa truflun á inndrætti seðla Íslandsbanka. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Jeg vænti þess, að hv. þm. geti skilið þessa till. og myndað sjer skoðun um málið.