14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

125. mál, seðlaútgáfa

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 594, frá minni hl. fjhn. Það bar vel í veiði, að hæstv. fjrh. lýsti afstöðu sinni til þessarar brtt. Hann hefir það eftir Landsbankastjórninni, að eini hemillinn á seðlaútgáfunni sje þessi 5%, sem bankinn greiðir ríkissjóði. En þessir hemlar eru fleiri. Einn þeirra er fjármálaráðherrann, og þeim hemli er ekki slept, þó okkar till. verði samþykt. Okkar till. miðar að því að láta Landsbankann standa eins að vígi og venjulegan seðlabanka. Þetta gjald er miðað við gulltrygginguna, sem venjulega er 1/3 af seðlamagninu. Þetta er því nákvæmlega sami hemill og seðlabankar hafa yfirleitt, hið sama og gert var ráð fyrir í Landsbankafrumvarpi meiri hl. bankanefndarinnar og hæstv. stjórnar, sem svæft var í Ed. Við gerum í till. okkar Landsbankann á þessu ári að seðlabanka með seðlabankaaðstöðu. Hæstv. fjrh. hlýtur að játa, að till. okkar er ekki hættuleg frá „bankateknisku“ sjónarmiði. En þetta snertir nokkuð gengismálið, og því flytjum við flutningsmenn nú þessa tillögu. Við viljum amast við, að verið sje að mynda gengissjóð, og við viljum gera Landsbankanum mögulegt að verða seðlabanki á þessu ári og reka þá gengispólitík, er hagsmunir þjóðarinnar heimta. Það er engin freisting, sem hjer er verið að leggja fyrir þá bankastofnun, sem var við því búin að taka að sjer alla seðlaútgáfuna á þessu ári, að dómi hæstv. fjrh. og yfirgnæfandi meiri hluta þessarar deildar.