14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

125. mál, seðlaútgáfa

Jakob Möller:

Jeg á aðeins að skila frá meiri hl. fjhn., að hann leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt. Að öðru leyti hefir hæstv. fjrh. tekið af mjer ómakið að lýsa ástæðunum, sem til þess liggja. Aðalbreytingin er fólgin í 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir frestun á inndrætti seðlanna. Þegar sett var reglugerð um seðlainndrátt Íslandsbanka, var auðvitað gert ráð fyrir, að mjög fljótt yrði sett á fót stofnun, sem tæki við seðlaútgáfunni. Þetta hefir dregist og nú vantar viðtakanda, sem taki við seðlaútgáfunni af Íslandsbanka. Þetta er óhentugt, ekki einungis Íslandsbanka, heldur einnig stjórninni og Landsbankanum. Það, sem Íslandsbanki má nú hafa í umferð af seðlum, er komið niður fyrir það, sem óhjákvæmilegt er að hafa vegna gjaldmiðils þarfar landsmanna. Hjer er aðeins farið fram á það að fresta inndrætti seðlanna. Hæstv. fjrh. hefir skýrt frá, að þetta væri borið fram í samráði við stjórn Landsbankana, enda er ekki ágreiningur um þetta í fjhn. Um brtt., sem fyrir liggja, ætla jeg ekki neitt að segja. Það má gera ráð fyrir, að ekki komist skipulag á seðlaútgáfuna fyr en eftir almennar kosningar. Till. hv. 2. þm. Reykv. er því rjettmæt. Till. minni hl. fjhn. hefir hæstv. fjrh. gert að umtalsefni, og get jeg því slept að minnast á hana.