27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að mjer finnast aðfinslur við gerðir fjvn. ekki miklar, og sumir hafa sagt, að nefndin hafi leyst starf sitt vel af hendi, eins og t. d. hæstv. fjrh. (JÞ). Það voru aðeins tvær brtt., er hann hafði ástæðu til að amast við. Hin fyrri var um lán til Boga Þórðarsonar, sem hæstv. fjrh. virtist óþarft að fella niður. Jeg hefi áður lýst afstöðu meiri hl. fjvn. til þessa máls. Hæstv. ráðh. sagði, að verksmiðja Boga Þórðarsonar stæði ekki vel að vígi í samkepninni eins og er, og mundi ekki reynast Álafossi mjög hættulegur keppinautur, þótt þessi lánveiting fengi að standa. Báðar verksmiðjurnar mundu hafa nóg að starfa. Þetta getur verið. En það er samt ekki óhugsandi, að þessi nýja verksmiðja geti, eins og meiri hl. fjvn. óttast, reynst Álafossi hættulegur keppinautur. Að minsta kosti veit jeg þar sem jeg þekki til, að kembur frá Boga Þórðarsyni hafa reynst betur en frá Álafossi, en það er máske ekki að marka, því að fyrst er alt frægast.

Hin till., sem hæstv. fjrh. hafði á móti, er um það að veita Boga Brynjólfssyni sýslumanni lán til þess að koma sjer upp bústað. Fyrir þessu er fordæmi, því að sýslumanninum í Borgarnesi og bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum voru veitt slík lán, og það til lengri tíma, 30 ára að mig minnir. Hinsvegar hefir hæstv. stjórn það í hendi sinni að veita ekki þetta lán, ef henni finst það ekki sæmilega trygt. En það skal jeg viðurkenna, að slíkar lánveitingar geta dregið dilk á eftir sjer.

Meðan jeg man, vil jeg taka það fram út af orðum hæstv. forsrh. (JM), að nefndin tekur aftur til 3. umr. 20. brtt.

Sá, sem mest hefir veist að fjvn., er hv. 3. landsk. (JJ). Það eru 6 till. nefndarinnar, sem hann vill ekki, að gangi fram. Fyrst er það styrkur til Haralds Sigurðssonar, og fanst honum fjvn. gera lítið úr sjer að ráðast á veikan mann. En það er nú hvergi nefnt á nafn, hvar hann ætli að leita sjer lækninga, þessi maður. Hjer er ekki um að ræða styrk til að leita lækninga, heldur sjúkrastyrk staðfastan ár eftir ár. Ef hjer hefði staðið utanfararstyrkur til heilsubótar, þá hefði verið öðru máli að gegna. En eins og sakir stóðu, mátti búast við fjölda sjúklinga, er höfðu jafnmikinn rjett til styrks, eins og jeg drap á í framsöguræðu minni.

Þá var um 15 þús. kr. niðurfærsla til símalagninga. Háttv. þm. (JJ) hjelt því fram, að með því væri símalína til Loðmundarfjarðar fallin niður, en sagði landssímastjóra þeirri línu meðmæltan. Jeg skal ekkert segja um það, en hitt er víst, að í upphafi hafði landssímastjóri ekki tekið þessa línu með í sína áætlun. Hinsvegar, eins og jeg tók fram áður, er vonandi, að ekki þurfi til þess að koma og að þessi sími verði lagður. En allar vonir geta brugðist, og svo er um þessa sem aðrar.

Þá þótti þeim hv. 3. landsk. (JJ) og hv. 1. landsk. (SE) það illa til fallið að fella niður styrk til Helga Hjörvars, og vildu báðir halda því fram, að í nál. væri hnútum kastað til hans. En því fer fjarri. eins og nál. ber með sjer. Fyrir fjvn. lágu umsóknir frá öðrum kennurum, svo sem Steingrími Arasyni, um líka styrki. og þóttist nefndin alls ekki geta gert upp á milli þessara manna þannig, að taka þennan eina út úr, því að hún áleit ekki meiri nauðsyn á að senda hann en einhvern annan. En það er langt frá, að fjvn. haldi því fram, að hann sje ekki góður maður í sínu starfi. Á hitt ber líka að líta, að hann hefir fengið styrk til utanfarar áður, en margir aðrir góðir kennarar hafa engan slíkan styrk fengið, og finst mjer ekki rjett gagnvart þeim að veita honum slíkan utanfararstyrk svo að segja ár eftir ár, en hinum aldrei, þótt jafngóðir kennarar sjeu.

Að ekki komi til mála að halda því fram, að hnútur til þessa manns sjeu í nál., má meðal annars rökstyðja með því, að allir hv. meðnefndarmenn mínir í fjvn. hafa skrifað undir þessi ummæli athugasemdalaust. En það hefðu þeir áreiðanlega ekki gert, ef þeir hefðu álitið, að nokkrar hnútur til þessa manns væru fólgnar í orðalagi nál.

Þá var háttv. 3. landsk. (JJ) einnig á móti því að fella niður menningarsögustyrkinn handa gömlum og fróðum sagnaþulum, til að skrifa þjóðlegan fróðleik. Færði hann þar fram sem sjerstaka ástæðu, að nú hefðum við þessa gömlu fróðleiksmenn víða úti um land, og væri óvíst, hve lengi þeirra nyti við. Yrði því að nota tækifærið til að láta þessa menn skýra hinni uppvaxandi kynslóð frá, hvernig alt hefði verið í uppvexti þeirra, áður en um seinan væri orðið. Jeg get nú ekki fallist á það, að svo ákaflega liggi á að veita þennan styrk, því að á öllum tímum hljóta að verða uppi gamlir fróðleiksmenn, sem geta skýrt æskulýðnum frá ungdómsárum sínum.

Þá var hv. 3. landsk. einnig á móti því að lækka styrkinn til kaupa á listaverkum, og tóku þar í sama strenginn hæstv. forsrh. (JM) og hv. 1. landsk. (SE). En þar sem nú var mikil viðleitni hjá fjvn. að spara eitthvað, þótti henni þetta forsvaranlegt, með tilliti til þeirrar miklu runu, sem nú er komin af listamönnum í sjálf fjárlögin. Hv. þm. (JJ) hjelt því fram, að hjer á landi væri ekki nema einn málari, sem gæti lifað á verkum sínum, og hefir hann var líklega átt við Ásgrím Jónsson. Vegna þessa sagði hann, að ríkið yrði að kaupa verk þeirra. Jeg veit nú raunar um annan málara, sem jeg hygg að lifi alveg á verkum sínum. Það er Eyjólfur Eyfells. Hann hefir líka vit á því að haga sjer ögn eftir kringumstæðunum og halda ekki málverkum sínum í svo háu verði, að alþýðu manna sje ofvaxið að kaupa þau. Enda hefir þetta orðið til hins besta fyrir báða aðilja. Hann hefir nóg að gera og málverk hans eru víða til mikillar híbýlaprýði. — En þegar verkunum er haldið í svo háu verði, að fáir eða engir geta keypt þau, þá kemur til kasta ríkisins. Álít jeg mjög varhugavert að fara langt í þessum kaupum, því að þannig geta hrúgast saman ógurleg feikn af málverkum, sem eru nauðalítils virði mörg hver.

Þá var þessi hv. þm. (JJ) einnig mótfallinn því að fella niður styrkinn til Guðmundar Finnbogasonar. Jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að um þetta rjeði ekki óvild til mannsins, heldur aðeins óttinn við fordæmið. Því að verði þessi styrkur veittur, má búast við, að ýmsir fleiri vildu sigla í sama farið. Það er hætt við, að þá kæmu fram raddir frá fleiri mentamönnum, er þykjast eiga við þröngan kost að búa og vildu fá styrk til að skrifa um aðaláhugamál sín. Háttv. þm. sagði, að ekki þurfti að óttast fordæmið, því að ekki kæmi til mála að veita slíkan styrk nema afbragðsmönnum, sem altaf yrðu sárfáir. En það verða altaf örðugleikar á að finna takmörkin í því efni.

Jeg geri ráð fyrir að sá, sem bæri fram slíkan mann, vildi halda honum öfluglega fram. Og ef sagt væri um einhvern mentamann, að hann væri slíks styrks ekki maklegur, geri jeg ráð fyrir, að það þætti eigi síður móðgandi en hin meinlausu ummæli mín um Helga Hjörvar í nál.

Þá var það styrkurinn til Heimilisiðnaðarfjelagsins. Hv. 3. landsk. var því andvígur að fella niður athugasemdina um Guðmund frá Mosdal. En nefndinni finst óviðfeldið að brytja niður lítilfjörlegan styrk til ákveðins fjelags milli einstakra manna. Því að eins og þessi maður er tekinn þarna inn, mætti taka annan og þann þriðja, með sinn bitann hvorn, uns alt væri uppjetið. — Þetta voru nú þær till., sem hv. 3. landsk. talaði á móti.

Hv. 6. landsk. (ÁH) hafði mjög á móti till. um að fella niður styrk til ferju á Hrosshyl. Sagði hann, að hana þyrfti mest að nota um sláttinn, þegar útlendir og innlendir „túristar“ væru á ferð. En í fyrsta lagi fæ jeg ekki sjeð að þeir menn sjeu of góðir til að greiða fult verð fyrir ferjuna og í öðru lagi liggur þeim víst fæstumt svo mikið á, að þeir geti ekki tekið á sig krók niður á Þjórsárbrú, ef Nautavað er ekki fært. — En það, sem fjvn. óttast, er fordæmið, sem þetta hlýtur að gefa, af því að þetta er lögferja. Það eru áreiðanlega margar lögferjur, sem hafa jafnan rjett á að fá styrk eins og þessi. A. m. k. þekki jeg eina, sem jeg teldi engu síður þörf á að styrkja en þessa.

Þá talaði sami háttv. þm. (ÁH) um styrkinn til búnaðarfjélaganna og var því andvígur, að athugasemdin fjelli niður. Það hefir nú oft verið svo, að þessi aths. hefir ekki staðið í fjárlögunum, og engin í hennar stað. Veit jeg ekki til, að það hafi nokkurntíma valdið vandræðum. Enda tel jeg sjálfsagt, að farið yrði eftir dagsverkatölu við úthlutun styrksins, þótt aths. fjelli niður. — Hitt, að það sje svo nauðsynlegt að binda hendur fjelaganna um verkfærakaup, fæ jeg ekki sjeð. Þvert á móti held jeg, að það sje betra að hafa þau frjáls í þeim efnum. Ef þau finna hjá sjer þörf fyrir að kaupa verkfæri, þá gera þau það án allrar þvingunar, en hún kæmi aðeins niður á þeim fjelögum, sem ekki þættust þurfa á verkfærum að halda. Enda hefir reynslan verið sú, að sumstaðar hefir gengið illa með verkfærin. Þau hafa legið hjá formönnum fjelaganna, stundum í hirðuleysi og stundum notuð af þeim einum og næstu nágrönnum þeirra. Vitanlega kemst slíkt ekki á fullkomið stig fyr en hver bóndi á sjálfur hin nauðsynlegustu verkfæri, svo sem plóg og herfi. — Hv. 6. landsk. var einnig á móti því að fella niður styrkinn til Boga Þórðarsonar. Hefi jeg ekkert um það að segja.

Hv. þm. Vestm. (JJós) fann töluvert að gerðum fjvn. Var það mest fyrir þá sök, að hún vildi fella styrkinn til öldubrjótsins í Bolungarvík. Hefi jeg þegar skýrt frá, af hverju það stafar. Hv. 2. þm. S.M. (IP) tók í sama streng og kom með samanburð á öldubrjótnum í Bolungarvík og hafnarbótunum í Ólafsvík. Þessi samanburður var ekki allskostar rjettur, því að hafnarbæturnar í Ólafsvík gefa engan arð enn sem komið er, og gera ekki fyr en þeim er lokið, en öldubrjóturinn í Bolungarvík er verk, sem er eða á að vera búið og þar af leiðandi farið að gefa arð. Hjer er því um býsna ólíkar ástæður að ræða.

Hv. 2. þm. S.-M. hneykslaðist einnig á því, að fjvn. leggur til, að utanfararstyrkirnir sjeu jafnir til allra listamanna, sakir þess að hæfileikarnir væru ekki jafnir.

En það vantar bara þann rjettláta dómara til að meta hæfileika þessara manna. Sá sem mælir með einhverjum þeirra, mundi altaf halda því fram, að hans skjólstæðingur væri í hópi þeirra allraefnilegustu. Hv. þm. var sjerstaklega að tala um Þórarin Jónsson og áleit óforsvaranlegt að lækka styrkinn til hans. Ef svo er, hefir það engu síður verið óforsvaranlegt af fjvn. hv. Nd. að fást ekki til að taka upp nokkurn styrk til þessa manns, því að þar var það einn hv. þm. utan fjvn., sem kom styrknum á framfæri. Nei, það er ómögulegt fyrir þingið að ætla sjer að meta upp á hár til peninga hæfileika hvers listamanns. En það er annað, sem er sameiginlegt, hvað sem hæfileikunum líður. Það er kostnaðurinn við að stunda nám erlendis. Hann er altaf svipaður, og er því eðlilegt, að menn sjeu styrktir jafnmikið til námsins. Enda er þessu fylgt á öðrum sviðum. T. d. er styrkur sá, sem stúdentar fá til utanfarar lögum samkvæmt, altaf jafnhár, án tillits til hæfileika.

Jeg held, að jeg hafi þá minst á flestar mótbárur, sem fram hafa komið gegn brtt. fjvn. Hv. 1. landsk. (SE) sagði að vísu nokkur orð. En jeg sje ekki ástæðu til að tala um neitt af því, sakir þess að það var alt áður sagt. Hann var raunar að tala um, að hann hefði átt frumkvæðið að styrknum til Kristínar Sigfúsdóttur. En jeg vil geta þess, að nefndin tók þetta upp alveg af eigin hvötum. — Hv. 1. landsk. drap einnig á fríi Guðrúnu Indriðadóttur. Jeg skal játa það, að leitt var að geta ekki haft styrkinn til hennar hærri en 2000 kr., en þar eð nefndin hafði sett sjer þetta „princip“, vildi hún ekki víkja frá því.

Þá kem jeg að brtt. einstakra hv. þm. Það er einkennilegt við þær, að þær eru allar til hækkunar, en engin til lækkunar. Hefir mjer talist svo til, að þær næmu samtals 68530 krónum, svo að ekki verða fjárlögin glæsilegri, ef þær ná allar fram að ganga.

VI. brtt. á þskj. 418 skilst mjer, að hv. 3. landsk. hafi tekið aftur til 3. umr., og er því ekki þörf að ræða hana nú. — Hann leggur og til, að keypt sje marmaramyndin „Hafmey“ eftir Ásmund Sveinsson. Nefndinni var sæmilega kunnugt um þetta, en treystist ekki til að fylgja því. Hið háa Alþingi hefir keypt myndina „Móðurást“ áður, og þykir ýmsum, að sú mynd sje nægilega þung í eftirdragi. Fjvn. heldur, að ef kaupa ætti annað slíkt verk þegar í stað, mundi ýmsum þykja nóg komið.

Þá var styrkurinn til Brynjólfs Þórðarsonar. Það er ekki listamannastyrkur, heldur sjúkrastyrkur, og eru um hann óbundin atkvæði. En það, sem gerði nefndina deiga að vera með þessu, er, að Jón Ásgeirsson píanóleikari, sem hefir mjög góð meðmæli, liggur nú veikur suður í Vínarborg. Hefir hann verið skorinn upp tvisvar, og stendur víst til að gera það hið þriðja sinn. Hefir hann farið fram á hjálp, en ekki þótt fært að setja styrk til hans í fjárlög. Verð jeg þó að segja, að hann er ver kominn, að liggja sjúkur í framandi landi.

Um eftirgjöfina á viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals er sama að segja og allar eftirgjafir á lánum. Það getur ekki talist fullkomlega „móralskt“ að fara fyrst fram á lán og síðan að vilja fá það eftirgefið. — Jeg get sagt það um þá sýsln. sem jeg er fulltrúi fyrir hjer á Alþingi, að henni var góðfúslega veitt hjálp eftir jarðskjálftana miklu. Okkur hefir ekki dottið í hug að fara fram á eftirgjöf á því, heldur erum þakklátir fyrir hjálpina, — Um þessa till. hv. 3. landsk. eru þó óbundin atkvæði í nefndinni.

Þá talaði hv. 3. landsk. þm. fyrir styrk til Íslendingaheimila í Osló og Kaupmannahöfn. Nefndin leggur á móti hvorutveggja. Mjer er kunnugt um, að Ingimundur Eyjólfsson hefir sýnt mikinn áhuga og dugnað í byggingu Íslendingaheimilis í Osló. En nefndinni virðist, að nóg sje að gera hjer heima, bæði að byggja og annað, og megi því byggingar erlendis bíða í bili.

Hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Eyf. hafa borið fram till. um styrk til framhaldskenslu við gagnfræðaskólann á Akureyri. Er ætlunin með þessu að gera mönnum ljettara að lesa undir stúdentspróf þar. Hæstv. forsrh. hefir þegar talað um þetta og vísað til þess, að þegar verið var að koma á framhaldskenslunni við gagnfræðaskólann á Akureyri, var látið svo, sem þetta væri aðeins góðsemi og sagt, að þetta þyrfti ekkert fje að kosta fyrir ríkissjóð. Hinsvegar er þessi styrkur frá margra sjónarmiði vísir til nýs mentaskóla á Norðurlandi. Og það vita hv. þm., að í því máli er mikill stefnumunur. Annars eru um þetta atriði óbundin atkv. í nefndinni.

Þá bera háttv. 3. og 4. landsk. fram brtt. um að setja styrk til Skúla læknis Guðjónssonar inn á öðrum stað en hann er nú. Jeg get viðurkent, að um þetta er nokkru öðru máli að gegna. Í frv. er gert ráð fyrir að stofna nýtt embætti og að þessi maður verði fastur starfsmaður við háskólann hjer. En með þessari brtt. er gefið í skyn, að þetta eigi aðeins að vera styrkur til að ljúka við rannsóknir, og er það nokkuð annað en í frv. stendur. En það er nú svo, að við verðum að takmarka okkur í mörgu. Þó að þessi maður hafi fengist við vísindalegar rannsóknir og skrifað í erlend tímarit, þá höfum við líka mjög hæfa lækna hjer heima, sem líka hafa skrifað um þessi efni, og þeir hafa skrifað á okkar máli. T. d. hefir Gunnlaugur Claessen nýlega skrifað í almanak Þjóðvinafjelagsins einmitt um bætiefni. Og til eru líka ritgerðir eða fyrirlestrar eftir Jónas Kristjánsson um þetta efni.

Þá hefir sami hv. þm. flutt till. um að veita Theodóru Sveinsdóttur 2 þús. kr. styrk til matreiðslukenslu hjer í bænum. Um þetta ætla jeg ekkert sjerstakt að segja, en jeg býst við, að þessi kona sje mjög dugleg og hafi mikla þekkingu á þessu sviði. Hins vegar veit jeg ekki, hvernig nefndin í heild sinni lítur á þetta.

Þá er næstur hv. þm. Vestm., og má segja um hann, að hann sje tvöfaldur í roðinu, þar sem hann er bæði frsm. samgmn. og þm. Vestm. Hvað till. samgmn. snertir skal jeg geta þess, að mjer þykir óviðfeldið, að þær komu ekki fram fyr en á síðustu stundu, svo að ekki vanst tími til að athuga þær nægilega.

Annars finst mjer upphæðin nokkuð há, sem farið er fram á, og þykir nefndinni ekki fullkomlega upplýst, að ekki sje hægt að komast af með minna. En hjer er ekki um það að ræða að fara neinn milliveg, því að samgmn. hefir bundið till. sínar við það, að þær væru annaðhvort samþyktar allar eða engin. Annars eru atkv. fjvn. óbundin um þetta.

Þá flytur hv. þm. sjálfur nokkrar brtt., meðal annars um 2 þús. kr. styrk til Sigurðar Skagfeldts til þess að ljúka söngnámi. Nefndinni er áður kunnugt um þennan mann og hefir ekki getað fallist á að taka hann upp, án þess hún hinsvegar vilji gera lítið úr hæfileikum hans á nokkurn hátt.

Um styrkinn til Ólafs Guðmundssonar til þess að ljúka námi sem spuna- og kembimeistari er dálítið öðru máli að gegna. Nefndin vill ekki, að minsta kosti ekki í heild sinni, mæla á móti þessu, og eru óbundin atkvæði um það. Sama má segja um hækkunina á vegastyrknum til Vestmannaeyja; um hann eru óbundin atkv., en það er ekki hægt að neita því, að það er allríflegur styrkur, þó segja megi, að ríkissjóður geti náð því upp aftur síðar.

Þá hefir sami hv. þm. komið fram með brtt., sem fer í þá átt, að ríkissjóður ábyrgist alt að 60 þús. kr. lán til Vestmannaeyja. Nefndin er yfir höfuð myrkfælin við þessar ábyrgðir, enda eru nú þegar margar fyrir, og verður eitt yfir þær að ganga bæði til Vestmannaeyja og Neshrepps; nefndin verður að vera á móti báðum.

Þó að Vestmannaeyjar sjeu sennilega færari en Neshreppur til að leggja út í slíkt fyrirtæki, þá hlyti það þó að verða þeim nokkuð erfiður baggi. Jeg verð að taka þær báðar í senn þessar till. hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. S.-M., því að þær eru náskyldar.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. G.-K. (BK), og þykir mjer það leitt, að þessi eina brtt., sem hann flytur, er þannig vaxin, að jeg get ekki greitt henni atkv., og jeg býst ekki við því, að nefndin geri það heldur. Það er vitanlega ekki há upphæð, sem farið er fram á, aðeins 3 þús. kr., en það er þó nokkuð mikið í samanburði við þær 5 þús. krónur, sem veittar eru til bifreiðaferða austur yfir fjall, og er þar þó um að ræða mestalla flutninga í tvær sýslur. Jeg lít svo á, að þennan styrk hefði verið vel gert að hækka og að full þörf væri á því, meðan ekki fæst járnbraut eða aðrar samgöngubætur fyrir þessar sýslur, sem komi í skarðið fyrir að samgöngur á sjó hafa nú að mestu lagst niður.

Jeg flyt samt ekki brtt. um að hækka þetta nú, með því að í hv. Nd. var feld 1000 kr. hækkun á þessum lið, og verðum við því að una við þessi 5 þús. Nú lít jeg svo á, að ef farið yrði að veita öðrum hjeruðum styrk í þessu skyni, þá mundu fleiri koma á eftir, og er þá bágt að segja, hvar lenti.

Hv. 5. landsk. (GunnO) hefir komið fram með eina brtt., en af því að hann er veikur, hefir honum ekki gefist kostur á að mæla með henni sjálfur. Jeg get lýst því yfir, að nefndin telur þessa till. ekki ósanngjarna. Hjer er um að ræða ekkju eftir mjög mætan mann, sem fjell frá á besta skeiði, en ljet lítið af veraldlegum efnum eftir sig. Að sögn kunnugra manna mun líf þessa manns hafa gengið frekar út á það að gefa eftir laun sín en að hrúga þeim saman. Jeg held svo, að það sje ekki meira, sem jeg þarf að segja að sinni.