14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

125. mál, seðlaútgáfa

Jakob Möller:

Viðvíkjandi því, sem þeir hafa sagt hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), en þó sjerstaklega hæstv. fjrh. (JÞ), vil jeg taka það fram, að áhættan við seðlaútgáfu og gengisverslun Landsbankans getur alveg eins stafað af því, að gengið lækki, og því er það augljóst, að það væri ranglæti að neita þeim banka, sem á að hafa hemil á genginu, um einhverjar tekjur af seðlaútgáfunni, því bankinn þarfnast auðvitað talsverðs fjár til að standast þessa áhættu. Það er satt sem hæstv. fjrh. sagði, að brtt. 594 tekur ekki þessar tekjur af bankanum nema að nokkru leyti og hann hefir vald til að verja þessum tekjum að nokkru leyti til að halda við genginu, en gegn því hafa komið fram ákveðin mótmæli af flm. frv. o. fl. Þeir vilja ekki verja til þess einum eyri, en þó segjast þeir vilja láta halda því föstu, sem alls ekki er hægt nema með því að verja til þess einhverju fje. Hinsvegar hafa komið raddir um það í þessum umræðum, að stjórnin ætti að styðja bankann með fjárútvegun til að halda genginu föstu, en jeg vil benda á, að það má alveg eins búast við, að gengið leiti niður eins og upp á við, og í báðum tilfellum kostar það fje að halda því föstu.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) vil jeg svara því, að það er talsvert meira en hæpið að telja seðlalúgáfuna tekjugrein fyrir ríkissjóð. Um leið og hinir gulltrygðu seðlar Íslandsbanka eru dregnir inn verður að gefa út ógulltrygða seðla, sem ríkissjóður verður að bera ábyrgð á, og það er ærið hæpin leið, sem seðlaútgáfunni þannig er beint út á.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) þarf ekki að óttast það, að þetta hafi neina raunverulega breytingu á samningnum við Íslandsbanka í för með sjer; bankinn er aðeins leystur frá því í svip að draga inn alla þá seðla, sem honum var gert að draga inn; en ef bankinn kýs það sjálfur, má hann auðvitað draga þá inn. Honum er þetta aðeins í sjálfsvald sett, í stað þess að hann var skyldur til þessa áður.