14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

125. mál, seðlaútgáfa

Jón Baldvinsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mælti á móti brtt. mínum og sagði, að bankanum væri þetta aðeins í sjálfsvald sett, hve mikið hann drægi inn af seðlum á árinu. Þetta var mjer vel ljóst; jeg vissi, að hann getur dregið inn seðlana eftir vild sinni, en mjer skilst, að með þessu sje ákvæðum og orðalagi gerðs samnings breytt. Og þó að þetta sje aðeins í vil Íslandsbanka, getur hann þá ekki, ef þetta er gert að honum fornspurðum, sagt, að nú sje án bankans samþykkis breytt þeim samningi, er áður hefir verið gerður um seðlainndráttinn, og bankinn þannig losni við að standa við hann og haldi sig aðeins að sjerleyfinu, er veitt var í upphafi? Jeg vil ekki fullyrða, að bankinn geti losnað undan kvöðum þeim, er lögin frá 1922 leggja honum á herðar gagnvart ríkinu. En eins og jeg hefi áður á minst, þykir mjer rjettara að fella niður þessa 3. gr. frv. og láta haldast þau ákvæði, er nú eru í lögum um inndrátt seðla hjá Íslandsbanka.