14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

125. mál, seðlaútgáfa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) get jeg ekki annað en látið alveg hlutlausa; hún er í samræmi við það, sem jeg hefi stungið upp á án þess í rauninni að bera mig saman við stjórn Landsbankans um það. En jeg tel hinsvegar efasamt, hvort borgar sig að hrekja þetta frv. milli deilda fyrir hans.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gerði fullmikið úr þeirri breytingu á tryggingunni, sem leiðir af þessum inndrætti. Það er sem sje svo, að sá gullforði, sem er til tryggingar seðlaútgáfu landsins í heild, breytist ekkert við þennan inndrátt, af því Íslandsbanki samkv. lögum selur ríkissjóði það gull, sem losnar úr tryggingu, og fer það yfir til Landsbankans.

En um brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) við 2. gr. verð jeg að segja það, að samþykt hennar er sama sem að fella greinina burt; því það þarf virkilega ekki að vera með lagasetningu um það að leggja eitthvað af fje ríkissjóðs á sjerstakan reikning í Landsbankanum. Það er alveg sama, hvort það er þar á sjerstökum reikningi eða á reikningi, sem ríkissjóður hefir yfir fje, sem geymt er þar.

Spurningin er aðeins þessi: Vilja menn, að þetta fje sje tiltækt með samþykki ríkisstjórnarinnar til þess að standast áhættu, sem bankinn telur sig þurfa að leggja sig í til þess að hindra gengisbreytingu? Og mjer skilst, að um það hafi verið gengið til atkv. áður.