14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

125. mál, seðlaútgáfa

Ólafur Thors:

Örstutt athugasemd vegna þess, að hv. þm. Str. (TrÞ) bar á mig, að jeg hefði við 3. umr. um frv. til laga um að stöðva verðgildi ísl. krónu lýst yfir, að jeg væri sammála hv. þm. Borgf. (PO) um það að bera fram þá ósk til hæstv. stjórnar, að hún verði ekki neinu af fje ríkissjóðs til þess að hindra breytingu á verðgildi krónunnar á komandi ári. Jeg skal nú ítreka það, sem jeg þá tók fram og lagði áherslu á, að jeg álít, að sú skoðun, sem lýsti sjer í hv. deild við umræður málsins, hafa hnigið eindregið að því, að ríkisstjórnin hefði fulla heimild til þess að verja nokkru af fje ríkissjóðs til að sporna við hækkun krónunnar. Þetta var mín skoðun þá, og er það enn — og samkv. henni er það rökrjett að samþ. 2. gr. eins og hún nú liggur fyrir. Því þótt mjer sje það fyllilega ljóst, að ástand atvinnulífsins býður ekki hækkun krónunnar heim á þessu ári, þá hefi jeg enga tryggingu fyrir því, að valdhafar peningamálanna líti sömu augum og jeg á það. Þess vegna gæti vel svo farið, að einhverntíma á árinu sýnist þeim áhætta fylgja því að hækka ekki krónuna, og tel jeg þá heppilegt, að þeir eigi að baki sjer sjóð þann, sem um ræðir í 2. gr. Þingviljinn er eindregið gegn hækkun, og er það ærið aðhald. Sjóðurinn er enn viðbótar stífla. Hann er að vísu smár, en hann nægir ef til vill til að fyrirbyggja órjettmæta hækkun, þótt hann hrökkvi skamt, ef lækkunin leitar á.

Jeg nota tækifærið til þess að mæla eindregið móti brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB). Mjer skilst á umræðunum, sem hjer hafa farið fram, að það sje að vilja beggja bankanna, að inndráttur seðlanna verði stöðvaður á árinu, en auk þess er jeg því meðmæltur af ýmsum öðrum ástæðum, en hirði ekki um að lengja umræður með því að greina frá þeim. Læt nægja, að það komi fram í umræðunum, að báðir bankarnir óska eftir þessu.

Jeg leyfi mjer að benda á að frekar væri ástæða til að samþykkja nú þessi lög óbreytt, til þess að þurfa ekki að tefja tímann með því að senda þau til hv. Ed., þar sem ekki ber meira á milli en raun ber vitni. Jeg segi þetta vegna brtt. hv. 2. þm. Árn., en hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að tillaga hv. þm. Str. verði feld, því í raun og veru er búið að fella hana að mínum skilningi við atjvgr. hjer í deildinni áður.