14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

125. mál, seðlaútgáfa

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil fyrst segja það, að menn þurfa ekki að hafa það á móti minni brtt., að slæmt sje að hrekja málið milli deilda. Efri deild mun halda fund í kvöld, og eins og við höfum hespað af þessar tvær umræður á einum degi og afgreitt málið hjeðan, þá verður hv. Ed. lítið verk að afgreiða málið á kvöldstund.

Hæstv. fjrh. og hv. 2. þm. G-K. (OTh) sögðu það um mína till., að hún væri fallin áður. Mjer þykir það ekki undarlegt, þótt þetta komi frá hv. 2. þm. (G.-K., en geta vil jeg þess í því sambandi, að mjer þykir hv. 2. þm. G.-K. hafa látið beygja sig alllangt niður í þessu gengismáli, og þó lengst nú.

Til hæstv. fjrh. vil jeg segja, að hann veit vel, hvernig hann hefir „praktiserað“ á þessu þingi, — að það má fara tvær leiðir til að ná sama marki. T. d. var um eina till., sem okkur var mjög ant um, sem bárum hana fram, að hún var samþ. í Nd. í einu lagi og sömuleiðis í Ed. við 2. umr. fjárlaganna. Síðan kemur hæstv. fjrh. með brtt. um að fella hvern lið till. út af fyrir sig, og þannig var hún feld. Jeg vil benda á, að jeg fer að þessu leyti í för hæstv. ráðherra. Jeg bjóst við, að hv. 2. þmt. G.-K. og ýmsir fleiri gætu orðið samferða mjer um þetta, en þar hefi jeg orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum.

Jeg ætla ekki að rökræða sjerstaklega till. hv. 2. þm. Árn. (JörB), en vil aðeins geta þess, að mjer þykir ekki undarlegt, þótt hæstv. ráðherra leggi ekki mikið móti

þeirri till. En 3. gr. frv. eins og hún er nú orðuð — að heimila Íslandsbanka að þurfa ekki að draga inn 1 milj. kr. af seðlum árlega — er í beinu samræmi við stefnu mína í gengismálinu, en í beinu ósamræmi við stefnu hæstv. fjrh. Vilji hæstv. ráðherra halda áfram að hækka krónuna, þá á hann að stuðla að inndrætti seðlanna og minka útlán.