14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

125. mál, seðlaútgáfa

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þarf ekki að svara hv. 3. þm. Reykv. (JaKM); hæstv. fjrh. gerði það áðan. Jeg hygg, að ábyrgð ríkissjóðs fyrir útgáfu seðlanna megi vera næg trygging fyrir þeim. Og þá má áreiðanlega telja til viðbótar það gull, sem Íslandsbanki kann að losna við, svo óþarft er að fjölyrða um þetta frekar. Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) kvað þetta frv. borið fram í samráði við báða bankana. Jeg get náttúrlega ekki gert npp á milli meininga manna um þetta atriði. Hæstv. ráðh. svaraði mjer áðan viðvíkjandi minni fyrirspurn, að frv. væri borið fram án þess að bera það undir Íslandsbanka og gat þess jafnframt út af ummælum annars þingmanns, að við að minsta kosti tvo menn úr stjórn Landsbankans hefði ekki verið talað um þetta. Getur því ekki heitið, að frv. sje borið fram samkvæmt samkomulagi milli beggja bankanna.

En þetta skiftir ekki svo miklu máli út af fyrir sig. Hitt skiftir náttúrlega mestu máli, — rjettlæti frv. á þeim grundvelli, sem það er borið fram. Hefði jeg fyr vitað það, sem hvíslað var að mjer af bankastjóra Íslandsbanka, hv. 1. landsk. (SE), eftir að brtt. mín kom fram, — að Íslandsbanki legði hina mestu áherslu á að vera laus við inndrátt þessara seðla á yfirstandandi ári, — þá er ekki víst að jeg hefði borið brtt. fram. En nú er hún fram komin, og jeg læt skeika að sköpuðu, hvernig menn snúast við henni.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.